Fótbolti

Fögnuður bandarísku stelpnanna var tileinkaður föllnum liðsfélaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sophia Smith skoraði tvö mörk í fyrsta leik bandaríska landsliðsins á HM.
Sophia Smith skoraði tvö mörk í fyrsta leik bandaríska landsliðsins á HM. Getty/Robin Alam

Sophia Smith skoraði fyrsta mark bandaríska landsliðsins á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta og fagnaði markinu með sérstökum hætti. Nú vitum við af hverju.

Smith fagnaði markinu með því að renna aftur fyrir munninn sinn eða „zip your lips“ upp á enska tungu.

Sjónvarpsvélarnar náðu reyndar fögnuðinum ekki nógu vel en Smith var þarna að tileinka markið sitt föllnum liðsfélaga.

Sú heitir Katie Meyer og lék með Sophiu Smith og Naomi Girma hjá Stanford háskólanum. Meyer féll fyrir eigin hendi á síðasta ári. Girma og Meyer voru mjög góðar vinkonur.

Naomi Girma ræddi við fjölmiðlamenn í dag og sagði frá hvað þær voru að hugsa. ESPN sagði frá.

„Við sögðum að ef einhver okkar skoraði, líklega hún [Smith], þá myndum við fagna svona. Þetta var önnur leið fyrir okkur til að heiðra minningu hennar,“ sagði Naomi Girma.

Meyer, sem var markvörður, tryggði Stanford háskólatitilinn 2019 með því að verja víti í vítakeppni í úrslitaleiknum. Hún fagnaði þá með því að renna fyrir munninn sinn. Smith og Girma voru þá liðsfélagar hennar.

Meyer tók sitt eigið líf í mars 2022 og síðan þá hafa Smith og Girma gert allt sitt til að auka skilning á mikilvægi þess að hugsa vel um geðheilsu íþróttafólks.

„Það eru margir leikmenn að tala um andlega heilsu, við meðtaldar, því við sjáum þetta sem gott tækifæri til að setja hluti í sviðsljósið sem skipta okkur máli. Þetta málefni hefur átt sér samastað í innsta kjarna liðsins í langan tíma og því er mikilvægt fyrir okkur að halda umræðunni áfram,“ sagði Girma.

„Þetta er rosalega mikilvægt fyrir bæði mig Soph,“ sagði Girma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×