Fótbolti

Reynsluboltinn þurfti bara fjórar mínútur til að ráða úrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiana Girelli fagnar sigurmarkinu á móti Argentínu sem hún skoraði aðeins fjórum mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Cristiana Girelli fagnar sigurmarkinu á móti Argentínu sem hún skoraði aðeins fjórum mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Getty/Phil Walter

Cristiana Girelli tryggði Ítalíu 1-0 sigur á Argentínu í fyrsta leik dagsins á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta.

Hin 33 ára gamla Girelli er markahæsti leikmaður HM-hóps Ítala og þriðja markahæsta landsliðskona Ítalíu frá upphafi en hún þurfti að sætta sig við það að byrja á varamannabekknum í þessum leik.

Staðan var enn markalaus þegar Milena Bertolini, þjálfari ítalska landsliðsins, ákvað að skipta reynsluboltanum sínum inn á völlinn á 83. mínútu.

Girelli var ekki lengi að minna á sig því hún skoraði fjórum mínútum síðar með frábærum skalla eftir fyrirgjöf frá Lisu Boattin.

Juventus framherjinn var þarna að skora sitt 54. mark fyrir ítalska landsliðið.

Sigurinn var gríðarlega mikilvægur ekki síst vegna þess hvernig leikurinn þróaðist.

Hin liðin í riðlinum eru Svíþjóð og Suður-Afríka en Svíarnir unnu 2-1 sigur í þeim leik í gær. Ítalía og Svíþjóð eru því bæði með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×