Fótbolti

Ekki viss um að Messi verði í byrjunarliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi veifar til áhorfanda þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður Inter Miami -.
Lionel Messi veifar til áhorfanda þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður Inter Miami -. AP/Rebecca Blackwell

Lionel Messi spilar sinn fyrsta leik með Inter Miami annað kvöld en það er þó ekki öruggt að argentínski snillingurinn byrji leikinn.

Tata Martino, þjálfari Inter Miami, sagði að Messi yrði líklega ekki í byrjunarliðinu en að hann myndi frá mínútur í leiknum sem er deildabikarleikur á móti Cruz Azul.

Martino var að ræða bæði Messi og Sergio Busquets sem mun líka spila sinn fyrsta leik með liðinu.

„Miðað við það sem ég hef séð hingað til þá eru þeir klárir í leikinn og fyrsti leikurinn þeirra verður líklega á föstudaginn,“ sagði Tata Martino við ESPN Fútbol 12 í Argentínu. ESPN segir frá.

„Það á eftir að koma í ljós hvort hann byrji leikinn eða komi inn á í hálfleik. Við erum ekki búnir að taka þá ákvörðun ennþá. Eins og ég sé það þá munu Leo og Busi geta spilað í þessum leik,“ sagði Martino.

Messi og Busquets mættu á sína fyrstu æfingu á þriðjudaginn. Messi skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning sem færir honum á bilinu 50 til 60 milljónir Bandaríkjadala á ári eða á bilinu 6,6 til 7,9 milljarða íslenskra króna.

Verðið á miðum á leikinn hefur rokið upp eftir að fréttist að þetta yrði fyrsti leikur Messi og það er því mikil pressa á að hann byrji þennan leik. Það er líka ljóst að Inter Miami liðið þarf á hjálp að halda.

Liðið hefur ekki unnið leik í MLS-deildinni í tvo mánuði en síðasti sigurinn var á móti New England Revolution 13. maí. Það þyrfti einhvern ótrúlegan endasprett til að koma liðinu í úrslitakeppnina.

Leikurinn annað kvöld er hluti af deildabikar á milli liða úr bandarísku deildinni og deildinni í Mexíkó. Mótherjarnir í Cruz Azul hafa ekki byrjað vel og þetta er því kjörið tækifæri fyrir Inter Miami að koma sér í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×