Erlent

Skemmti­ferða­skip slitnaði frá bryggju í miklum vindi

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Hafnaryfirvöld hafa hafið rannsókn á atvikinu.
Hafnaryfirvöld hafa hafið rannsókn á atvikinu. Skjáskot/Youtube

Norska skemmtiferðaskipið Norwegian Prima losnaði frá bryggju í Zeebrugge í Belgíu vegna vinds. Skipið var að koma frá Íslandi.

Þann 15. júlí síðastliðinn slitnaði hið risavaxna norska skemmtiferðaskip frá bryggjunni í Zeebrugge og landgangurinn féll í sjóinn. Enginn slasaðist í atvikinu sem hefur þó vakið nokkurn óhug.

Skipið tekur rúmlega 3.000 farþega og 1.500 manns starfa um borð. Skipið sigldi frá Reykjavíkurhöfn þann 6. júlí og hafði komið við í bæði Noregi og Hollandi áður en það kom til Belgíu.

Vindur var mikill í höfninni þennan dag, 11 til 34 kílómetrar á klukkustund, og gekk á með sterkum hviðum. Um klukkan 14:45 reið yfir svo sterk hviða að landfestingarnar slitnuðu.

Eftir það fauk 143 þúsund tonna skipið frá bryggjunni og þurftu dráttarbátar að koma til að koma því aftur að.

Flestir farþegar voru í landi þegar skemmtiferðaskipið rifnaði frá bryggjunni. Sækja þurfti nýja landganga þar sem hinir sukku til botns í höfninni. Skipið sigldi úr höfn um kvöldið en hafnarstjórn í Zeebrugge hefur hafið rannsókn á málinu.

Ekki einsdæmi

Norwegian Prima er ekki eina skemmtiferðaskipið sem hefur slitnað frá bryggju undanfarið því að í febrúar kom það sama fyrir skipið MSC Musica í borginni Rio de Janeiro í Brasilíu. Það skip, sem skráð er í Panama, er einnig mjög stórt. Tekur 2.500 farþega og tæplega 1.000 starfsfólk. Vindhviðurnar náðu þá 40 kílómetrum á klukkustund.

Samkvæmt fréttavefnum Cruisehive kemur það ítrekað fyrir að skemmtiferðaskip hætti við að leggja við bryggju í miklum vindi. Sérstaklega í höfnum þar sem pláss er lítið og jafn vel ekki hægt að setja út landganga heldur þarf að flytja farþega í land með bátum.

Stór skemmtiferðaskip eru viðkvæmari fyrir vindi og geta hæglega rekið frá bryggjunni eða á hana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×