Fótbolti

Sett í bann eftir kynjapróf í fyrra en er með á HM kvenna í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Barbra Banda er með fyrirliðbandið hjá Sambíu á þessu heimsmeistaramóti.
Barbra Banda er með fyrirliðbandið hjá Sambíu á þessu heimsmeistaramóti. Getty/Roland Krivec

Leikmaður sem mátti ekki taka þátt í Afríkukeppninni í fyrra eftir að hafa ekki staðist kynjapróf hefur fengið grænt ljós hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu að taka þátt í heimsmeistaramóti kvenna sem hefst í vikunni.

Hin 23 ára gamla Barbra Banda sló í gegn með Sambíu á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021 þegar hún skoraði meðal annars þrennu í tveimur leikjum í röð. Hún var aftur á móti hvergi sjáanleg þegar Sambía mætti í Afríkukeppnina í fyrra.

Allir leikmenn voru þá settir í kynjapróf og þar féll Banda þar sem hún var með of mikið magn af karlhormóninu testósterón. Án hennar tókst Sambíu liðnu engu að síður að tryggja sér bronsverðlaun.

The Athletic fjallaði um málið og sagði Banda vera í hópi með Caster Semenya sem eru báðar konur með náttúrulega mikið magn af testósterón.

Banda er nú markahæsti leikmaður kínversku deildarinnar með liði sínu Shanghai Shengli. Banda mætir til leiks í góðu formi en það sýndi hún meðal annars með því að skora tvö mörk í 3-2 sigri Sambíu á Þýskalandi fyrir nokkrum dögum. Banda skoraði sigurmarkið í þessum endurkomusigri.

Þjóðverjar voru allt annað sen sáttir og töluðu margir um hina umdeildu Banda. Samkvæmt reglum FIFA eru það þátttökuþjóðirnar sjálfar sem kanna og votta það að leikmenn þeirra séu konur. Banda fær grænt ljós hjá knattspyrnusambandi Sambíu og þar með FIFA.

Sambía er í riðli með Spáni, Japan og Kosta Ríka á HM og það verður mjög spennandi að sjá hvernig þessum þjóðum gengur að stoppa hina mögnuðu Barbra Banda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×