Innlent

Opna aftur fyrir að­gang fólks að gossvæðinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikill fjöldi fólks gerði sér ferð að gosinu áður en svæðið var lokað fyrir almenningi.
Mikill fjöldi fólks gerði sér ferð að gosinu áður en svæðið var lokað fyrir almenningi. Vísir/Vilhelm

Búið er að opna aftur inn á gossvæðið við Litla-Hrút en almenningi hefur verið óheimilt að ganga þar um frá því á fimmtudag. Slökkvistarf vegna gróðurelda heldur áfram en lögregla telur nú óhætt að hleypa fólki inn á Meradalaleið. Lögð er áhersla á að fólk fari ekki inn á skilgreint hættusvæði sem nær frá Náttaga að Keili. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Dvöl eða umferð almennings er bönnuð á skilgreindu hættusvæði sem sjá má yfirstrikað á meðfylgjandi korti. 

Kortið sýnir auk þess gönguleiðir að útsýnisstöðum en lögregla, landverðir og björgunarsveitir verða á svæðinu. Fólki er bent á að ganga að Hraunssels-Vatnsfelli, suðaustan við Litla-Hrút en er ekki heimilað að ganga lengra eða fara nær gosinu.

Nýja kortið sýnir gönguleiðir og skilgreind hættusvæði sem almenningi er óheimilt að fara inn á. Lögreglan

Lögregla með auknar valdheimildir í ljósi hættustigs

Hættustig almannavarna er áfram í gildi vegna eldgossins við Litla-Hrút en við slíkar aðstæður virkjast valdheimildir sem kveðið er á um í lögum um almannavarnir. Hættustund hefst þegar hættustigi eða neyðarstigi almannavarna er lýst yfir og lýkur þegar því er aflýst.

„Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að ákveða að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk. Fyrirmælum þessu er öllum skylt að hlíta,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði í samtali við fréttastofu fyrir hádegi að stefnt væri að því að slökkva seinustu kafla gróðureldanna í dag. Mikil skaðleg mengun hefur komið frá þurrum mosa síðustu daga sem hefur logað glatt eftir að hann komst í snertingu við eldheitt hraunið frá eldgosinu. 

Fylgjast má með stöðu eldgossins í vefmyndavél Vísis. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Á­fram lokað að gos­stöðvunum

Lokað verður áfram að gosstöðvunum við Litla-Hrút. Það er gert til að tryggja öryggi fólks á svæðinu en þar er mikil mengun vegna gróðurelda. Þá er vindáttin sérstaklega óhagstæð þar sem gasmengunin berst yfir gönguleiðir og Suðurstrandarveg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×