Fótbolti

Jón Þórir: „Með þessari vinnusemi vinnum við hvaða lið sem er“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Jón Sveinsson, þjálfari Fram. Vísir/Diego

Jón Sveinsson, þjálfari Fram, var eðlilega ósáttur með niðurstöðuna þegar lið hans tapaði fyrir Breiðabliki, 0-1, í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Jón sagðist þó heilt yfir ánægður með frammistöðu síns liðs.

„Auðvitað svekkjandi að tapa, við bara áttum undir högg að sækja. Fáum mark á okkur snemma leiks og spilum svo nánast allan seinni hálfleikinn manni færri. Þetta var erfiður leikur fyrir okkur en menn lögðu í þetta og ég er ánægður með frammistöðuna og karakterinn. Hefði viljað fá eitthvað út úr leiknum en niðurstaðan er þessi.“

Jón var svo spurður út í rauða spjaldið sem Delphin Tshiembe fékk.

„Hann rann eitthvað til, eins og menn voru reyndar að gera allan leikinn, kannski erfitt við þetta að eiga. En jú, auðvitað svekkjandi að vera einum færri, en ég get ekkert kennt leikmanninum um það.“

Þjálfarinn var að lokum spurður hvort hann vildi sjá eitthvað öðruvísi frá sínu liði í næstkomandi deildarleik gegn Val.

„Með þessum framlagi, vinnusemi og baráttu þá vinnum við hvaða lið sem er í deildinni. Það er fyrst og fremst það, ég held að við þurfum ekkert að gera neitt öðruvísi. Þessi leikur einkenndist mikið af því að vera einum færri í fjörtíu mínútur. Það hefði verið gaman að spila seinni hálfleikinn með jafnmörgum mönnum og sjá hvað það hefði gert fyrir okkur. Vonandi náum við að gera það á móti Val og þá bara vinnum við þann leik.“ sagði Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×