Innlent

Tekinn með fimm hundruð töflur af Oxycontin innan klæða

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn játaði brot sín.
Maðurinn játaði brot sín. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í níu mánaða fangelsi fyrir að hafa smyglað fimm hundruð töflur af Oxycontin, 80 milligramma, til landsins með flugi í apríl síðastliðinn.

Maðurinn var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnilagabrot, en hann kom með efnin með flugi frá Stokkhólmi í Svíþjóð til Keflavíkurflugvallar þann 30. apríl síðastliðinn í pakkningu sem hann hafði falið innan klæða. Hafi efnin verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Maðurinn játaði brot sín, en samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Af framburði mannsins mátti ráða að hann hafi sjálfur verið eigandi efnanna og staðið að smyglinu að eigin frumkvæði.

Í málinu lá fyrir bréf yfirlæknis frá árinu 2019 þar sem hann svaraði fyrir hönd landlæknis fyrirspurn lögreglustjórans á Suðurnesjum varðandi lyfið OxyContin. Þar sagði meðal annars að á árinu 2018 hafi verið skráð alls 39 lyfjatengd dauðsföll á Íslandi, þar af vegna ópíóða 23 dauðsföll. Í niðurstöðukafla bréfsins sagði svo að tvær til þrjár töflur af OxyContin, 80 milligramma, geti verið banvænar og að hjá óreyndum neytendum sem mylji töflurnar, eða einstaklingum sem séu undir áhrifum annarra slævandi efna, geti jafnvel ein tafla verið lífshættuleg.

Dómari í málinu mat hæfilega refsingu níu mánuða fangelsi, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem maðurinn var látinn sæta í eina viku eftir komuna til landsins.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða sakarkostnað, alls rúmlega 800 þúsund krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×