Fótbolti

Jamaíka í undan­úr­slit Gull­bikarsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðmundur Hreiðarsson, markmannsþjálfari Jamaíka, fagnar hér með Bobby Decordova-Reid leikmanni liðsins.
Guðmundur Hreiðarsson, markmannsþjálfari Jamaíka, fagnar hér með Bobby Decordova-Reid leikmanni liðsins. Vísir/Getty

Jamaíka tryggði sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum norður-ameríska Gullbikarsins eftir að hafa lagt Gvatemala að velli í 8-liða úrslitum. Jamaíka mætir Mexíkó í undanúrslitum.

Jamaíka fór með sigur af hólmi í sínum riðli Gullbikarsins eftir að hafa unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli í riðlakeppninni. Gvatemala lenti hins vegar í öðru sæti í sínum riðli.

Sigurinn í nótt var naumur. Jamaíka var betra liðið í fyrri hálfleik en eina markið í leiknum kom í upphafi síðari hálfleiks þegar Amari´i Bell, sem leikur með nýliðum Luton Town í ensku úrvalsdeildinni, skoraði eftir frábæra sendingu Demarai Gray innfyrir vörn Gvatemala.

Bæði lið fengu færi til að skora það sem eftir lifði leiks en mark Bell reyndist sigurmarkið í leiknum. Jamaíka vann 1-0 sigur og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum Gullbikarsins.

Í undanúrslitunum mæta lærisveinar Heimis Hallgrímssonar liði Mexíkó sem vann sigur á Kosta Ríka í sínum leik. Bandaríkin og Panama mætast í hinum undanúrslitaleiknum en Bandaríkin tryggði sér síðasta sæti undanúrslitanna í nótt með sigri á Kanada eftir vítaspyrnukeppni.

Leikur Jamaíka og Mexíkó fer fram aðfaranótt fimmtudags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×