Innlent

„Slæma daga forðast ég að vera utan­dyra í hverfinu“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Forstjóri Pure North segir byggð hafa breyst hratt í kringum endurvinnsluna undanfarin ár.
Forstjóri Pure North segir byggð hafa breyst hratt í kringum endurvinnsluna undanfarin ár. Vísir

Bæjar­ráð Hvera­gerðis­bæjar harmar upp­lifun íbúa í Hvera­gerði sem hafa kvartað til ráðsins vegna lykt­mengunar og plast­salla sem sagður er berast frá endur­vinnslu­fyrir­tækinu Pure North. For­stjóri endur­vinnslunnar segir fyrir­tækið eiga í góðu sam­starfi við heil­brigðis­yfir­völd og leiti sí­fellt leiða til að bæta starf­semi sína.

Í fundar­gerð bæjar­ráðs Hvera­gerðis frá því í vikunni er Geir Sveinssyni bæjar­stjóra falið að ræða við for­svars­menn Pure North vegna málsins. Til­efnið er bréf frá Bif­reiða­verk­stæði Jóhanns ehf. til bæjar­ráðsins.

Hefur gluggann lokaðan

Í bréfinu kemur fram að plast­bruna­lykt frá Pure North angri bif­véla­virkjana mjög í ná­grenni endur­vinnslu­stöðvarinnar að Sunnu­mörk 4. Á lygnum dögum í á­kveðinni vind­átt eru þeir komnir með haus­verk og ónot seinni hluta dags. Þeir spyrja hvað bæjar­yfir­völd ætla að gera og hvort fyrir­tækið sé með leyfi fyrir slíkri mengun.

„Erum klár­lega ekki að njóta dagsins sem er al­ger­lega ó­boð­legt. Slæma daga forðast ég að vera utan­dyra í hverfinu,“ skrifar bif­véla­virkinn.

Hann kveðst hafa verið í sam­skiptum við heil­brigðis­eftir­lit Suður­lands vegna málsins. Þar hafi hann fengið þau svör að margar kvartanir hafi borist vegna lyktar­mengunar í hverfinu.

Hefur hann eftir Sig­rúnu Guð­munds­dóttur fram­kvæmda­stjóra eftir­litsins, að hún viti af plast salla sem leggist yfir hverfið. Hún hafi bent þeim á að vísa erindinu til Hvera­gerðis­bæjar.

„Búið að fara nokkrar heim­sóknir en ekkert hefur breyst. Hún segir klárt að ég eigi ekki að verða fyrir ó­notum og finna plast bruna­lykt. Að auki segir sig­rún að það sé ekkert víst að þetta sé heilsu­spillandi og geti tæp­lega lokað fyrir­tæki með svo mörgum starfs­mönnum. Undar­legt álit þykir mér.“

Þá segir hann kunningja sinn og fyrirtækjaeiganda að Mánamörk í Hveragerði ekki geta haft glugga opna á norðurhlið vegna plast salla í lofti, brunalyktar og ýldulyktar. 

Sigurður Halldórsson segir Pure North gera sitt besta til að verða við slíkum ábendingum.Vísir/Vilhelm

Vill gera betur

Sigurður Hall­dórs­son, fram­kvæmda­stjóri Pure North, segir í sam­tali við Vísi, að slíkar kvartanir komi reglu­lega upp. Bæjar­stjóri eigi enn eftir að ræða við sig en Sigurður segir fyrir­tækið vilja vinna með yfir­völdum. Lykt sé hluti af starfseminni

„Við höfum ekki heyrt af þessum til­teknu kvörtunum en við höfum átt í góðu sam­starfi við heil­brigðis­yfir­völd í gegnum árin og munum gera það á­fram. Við erum alltaf að leita leiða til að gera betur og starf­semi okkar er í stöðugri þróun.“

Sigurður segir að fyrir­tækið hafi brugðist við slíkum á­bendingum af festu. Til mikils sé að vinna með því að endurvinna frekar hér heima en erlendis. 

Pure North hafi meðal annars gert at­huga­semdir við að í­búa­byggð yrði byggð í ná­grenni við iðnaðar­hverfið að Sunnu­mörk á sínum tíma, en ekki hafi verið hlustað á það.

„Þegar við hefjum starf­semi árið 2008 þá erum við í rauninni úti í sveit. Síðan þá hefur orðið heil­mikil upp­bygging í kring sem getur verið erfitt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×