Fótbolti

Spánverjar völtuðu yfir Úkraínu og komu sér í úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Spánverjar eru á leið í úrslit.
Spánverjar eru á leið í úrslit. Sam Barnes - Sportsfile/UEFA via Getty Images

Spánverjar munu mæta Englendingum í úrslitaleik EM U21 árs landsliða í fótbolta eftir að liðið vann afar öruggan 5-1 sigur gegn Úkraínu í undanúrslitum í kvöld.

Það voru þó Úkraínumenn sem tóku forystuna með marki frá Artem Bondarenko eftir undirbúning Mykhailo Mudryk strax á 13. mínútu.

Spánverjar voru þó ekki lengi að svara því aðeins fjórum mínútum síðar var Abel Ruiz búinn að jafna metin áður en Oihan Sancet sá til þess að liðið fór með 2-1 forystu inn í hálfleikinn með marki á 24. mínútu.

Antonio Blanco skoraði svo þriðja mark Spánverja á 54. mínútu, en þeir Aimar Oroz og Sergio Gomez gulltryggðu 5-1 sigur með sínu markinu hvor á 68. og 78. mínútu.

Spánverjar eru því á leið í úrslit þar sem liðið mætir Englendingum sem unnu öruggan 3-0 sigur gegn Ísrael fyrr í kvöld. Úrslitaleikurinn fer fram á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×