Erlent

Stoltenberg stýrir NATO áfram

Kjartan Kjartansson skrifar
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagins.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagins. AP/Olivier Matthys

Jens Stoltenberg stýrir Atlantshafsbandalaginu (NATO) áfram næsta árið. Þetta er i þriðja skiptið sem framkvæmdastjóratíð Stoltenberg er framlengd hjá sambandinu en hann hefur gegnt embættinu í níu ár.

Upphaflega átti Stoltenberg að láta af embætti í september en ákveðið var að bíða með breytingar í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu. Endurnýjunin nú þýðir að hann gegnir starfinu áfram til 1. október 2024.

Stoltenberg, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, sagðist upp með sér yfir ákvörðun aðildarríkjanna um að framlengja samning hans sem framkvæmdastjóra í tísti í dag.

„Tengsl Evrópu og Norður-Ameríku yfir Atlantshafið hafa tryggt frelsi okkar og öryggi í nærri því 75 ár og í hættulegri heimi er bandalag okkar mikilvægara en nokkru sinni fyrr,“ tísti Stoltenberg.

AP-fréttastofan segir að til hafi staðið að tilnefna eftirmann Stoltenberg á leiðtogafundi NATO í Litháen í næstu viku. Aðildarríkjunum hafi hins vegar ekki tekist að koma sér saman um hver það ætti að vera.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands og Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, voru nefnd sem mögulegir arftakar Stoltenberg.

Stoltenberg tók við framvæmdastjórastólnum árið 2014. Hann er næstþaulsetnasti framkvæmdastjóri NATO á eftir Joseph Luns, fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands, sem gegndi starfinu í tæp þrettán ár frá 1971.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×