Innlent

Gosloka­há­tíð ekki í sam­keppni við Þjóð­há­tíð

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Fjölbreytt dagskrá verður í Vestmannaeyjum alla vikuna.
Fjölbreytt dagskrá verður í Vestmannaeyjum alla vikuna. Vísir/Vilhelm

Goslokahátíð Vestmannaeyjabæjar verður sett í dag. Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá Heima­eyj­argosi lauk munu hátíðarhöldin standa í heila viku. Bæjarstjóri segir hátíðina ekki í samkeppni við Þjóðhátíð, sem sé allt annars seðlis. 

Fyrstu helgina í júlí ár hvert, stendur Vestmannaeyjabær fyrir myndarlegri Goslokahátíð, til minningar um lok eldgossins sumarið 1973.

En í ár stendur hátíðin yfir í heila viku, og þétt dag­skrá verður á eyjunni frá deginum í dag til og með 9. júlí.

„Dagskráin byrjar með því að forseti Íslands kemur með varðskipinu Óðni sem var hérna líka fyrir 50 árum,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjar.

„Svo er hátíðarbæjarstjórnarfundur í dag og úti á Skansi er hátíðarviðburður klukkan fimm. Svo er mjög mikil dagskrá á hverjum degi alveg þar til á sunnudaginn. Það eru bæði fastir punktar og ýmislegt nýtt.“

Gott upphaf á vikunni

Fjölbreytt dagskrá er í bænum alla vikuna og má þar á meðal nefna litahlaup, tónleika og listasýningar. Íris segir stemninguna í bænum virkilega góða.

„Það er ofsalega fallegt veður, og mun bara batna með deginum. Það er sól og hægur andvari og bærinn orðinn fallega skreyttur. Þetta er gott upphaf á vikunni.“

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri VestmannaeyjaVísir/Einar

Íris segir goslokahátíðina ekki í samkepnni við þjóðhátíð sem sé allt annars eðlis.

Yfirskriftin með Goslokahátíðinni hefur svolítið verið þakkargjörð. við erum að far til baka aftur í tímann, erum að hugsa um alla þá sem við getum verið þakklát fyrir. Sýnum fólkinu sem byggði bæinn aftur upp eftir gos virðingu. Þjóðhátíð er tónlistarhátíð þar sem við erum í dalnum, allt annað element þar á bak við,“ segir Íris Róbertsdóttir.

Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×