Innlent

Þakk­lát for­seta Ís­lands fyrir bréf eftir and­lát dóttur sinnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Móðir Sofiu er þakklát fyrir stuðninginn og þakkar sérstaklega forseta Íslands.
Móðir Sofiu er þakklát fyrir stuðninginn og þakkar sérstaklega forseta Íslands.

Valda Anastasia Ko­lesni­kova, móðir Sofiu Sar­mite Ko­lesni­kova sem fannst látin í heima­húsi á Sel­fossi þann 27. apríl síðast­liðinn, segist vera gríðar­lega þakk­lát fyrir stuðninginn sem hún hefur fengið eftir and­lát dóttur sinnar. Hún þakkar Guðna Th. Jóhannes­syni, for­seta Ís­lands, sér­stak­lega fyrir hand­skrifað bréf sem hann skrifaði henni.

Lög­reglan á Suður­landi hefur and­lát Sofiu til rann­sóknar og er karl­maður í gæslu­varð­haldi grunaður um að hafa banað henni. Valda segist þakk­lát öllum þeim sem hafi veitt henni styrk á þessum erfiðu tímum og þakkar sér­stak­lega börnum sínum og syst­kinum Sofiu.

„Krakkarnir mínir hafa staðið sig eins og hetjur og ekki gefist upp, þau eru öll mætt til vinnu og hitta vini og fjöl­skyldu,“ skrifar Valda í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Face­book. Hún þakkar sömu­leiðis vina­fólki sínu fyrir skil­yrðis­lausa ást og stuðning.

„Einnig langar mig að þakka for­seta Ís­lands, Guðna Th. Jóhannes­syni fyrir hand­skrifað bréf sem hann sendi og sýndi okkur stuðning á þessum erfiðu tímum og hans yndis­legu eigin­konu Elizu Reid sem gerði það jafn­framt og hefur boðið okkur að líta við.“

Í gæslu­varð­haldi í tvær vikur til við­bótar

Sveinn Kristján Rúnars­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Suður­landi, segir í sam­tali við Vísi að maðurinn sem grunaður er um að hafa valdið Sofiu bana verði í gæslu­varð­haldi í tvær vikur til við­bótar hið minnsta.

Lög­regla kærði gæslu­varð­halds­úr­skurð Héraðs­dóms Suður­lands fyrir tveimur vikum síðan til Lands­réttar og fékk gæslu­varð­hald yfir manninum því fram­lengt um fjórar vikur. Sveinn segir lög­reglu hafa talið það nauð­syn­legt vegna biðar eftir gögnum er­lendis frá.

Maðurinn hefur verið í gæslu­varð­haldi í tæp­lega níu vikur. Sveinn segir lög­reglu enn bíða eftir loka­skýrslu úr krufningu en hann segir bráða­birgða­niður­stöður benda til þess að Sofiu hafi verið ráðinn bani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×