Innlent

Snjóþyngslum og verðbólgu kennt um lakari niðurstöðu

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
„Uppgjör Reykjavíkurborgar endurspeglar áframhaldandi áskoranir í rekstri sveitarfélaga,” er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í tilkynningu borgarinnar.
„Uppgjör Reykjavíkurborgar endurspeglar áframhaldandi áskoranir í rekstri sveitarfélaga,” er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í tilkynningu borgarinnar. vísir/vilhelm

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar á fyrstu þremur mánuðum ársins er um 1,8 milljarði króna lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Í tilkynningu borgarinnar segir að niðurstaðan skýrist að mestu leyti af mikilli verðbólgu og snjóþungum vetri.

Óendurskoðað rekstraruppgjör A-hluta fyrir tímabilið janúar til mars 2023 var lagt fram í borgarráði í dag. Í tilkynningu segir að rekstrarniðurstaða A-hluta hafi verið neikvæð um 3,974 milljarða króna. Áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 2,167 milljarða króna á tímabilinu. Niðurstaðan er því 1,807 milljarða króna lakari en áætlað var.

Verðbólga, snjóþyngsli og aukinn kostnaður við skólaþjónustu

„Frávik skýrast einkum af hærri fjármagnsgjöldum en áætlanir gerðu ráð fyrir sökum verðbólgu eða 995 m.kr. yfir áætlun. Vetrarþjónusta var 588 m.kr. yfir fjárheimildum vegna snjóþyngsla á tímabilinu. Þá hefur kostnaður verið umfram áætlanir á skóla- og frístundasviði, að hluta til vegna móttöku barna af erlendum uppruna og auknum fjölda barna sem þurfa sértæk úrræði umfram það sem áætlað var,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Veltufé betra en á síðasta ári

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 764 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 47 m.kr. þannig að niðurstaðan var 812 m.kr. lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Veltufé frá rekstri var neikvætt um 667 m.kr. eða 1,016 m.kr. lakara en áætlað var. Veltufé var 1,956 m.kr. betra en á sama tíma árið 2022.

„Uppgjör Reykjavíkurborgar endurspeglar áframhaldandi áskoranir í rekstri sveitarfélaga,” er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

 „Áhrif af verðbólgu og aukinn snjómokstur vegna tíðarfars skýra frávik í rekstri á fyrstu þremur mánuðum ársins nær alfarið. Veltufé frá rekstri styrkist og er tæpum tveimur milljörðum betri en á sama tíma í fyrra. Reykjavíkurborg fylgir markvissri aðgerðaráætlun í fjármálum í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun borgarinnar. Brýnt er að viðræður sveitarfélaga og ríkis um fulla fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks verði leiddar til lykta sem fyrst,” segir Dagur ennfremur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×