Innlent

Hótaði að senda foreldrunum nektarmyndband

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Landsréttur kvað upp úrskurð sinn í dag.
Landsréttur kvað upp úrskurð sinn í dag. vísir/vilhelm

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um nálgunarbann á hendur manni sem sakaður er um að hafa ítrekað brotið gegn konu kynferðislega og haft uppi hótanir um að dreifa kynferðislegu myndefni af henni.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, sem féll 20. júní, að konan hafi lýst því í skýrslutöku hjá lögreglu í janúar síðastliðnum að maðurinn hefði brotið ítrekað á henni kynferðislega, meðal annars með dreifingu myndbands sem sýndi hana nakta. Lýsti hún stöðugu áreiti, ærumeiðingum,og hótunum af hálfu mannsins. Maðurinn hafi meðal annars hótað að dreifa frekari myndböndum af henni af kynferðislegum toga til foreldra hennar.

Eftir að hún útilokaði hann á samfélagsmiðlum hafi hann haldið áreitinu áfram með því að fá þriðju aðila til að koma skilaboðum á framfæri til hennar. 

Gögn og skýrslutaka mannsins, þar sem hann viðurkennir að nokkru meintar sakir, taldi lögreglustjóri staðfesta rökstuddan grun um brot hans. 

Í fyrra máli gegn manninum var ekki fallist á nálgunarbann og talið sennilegt að friðhelgi konunnar yrði vernduð með vægari hætti. Við þá ákvörðun var byggt á framburði mannsins þar sem hann sagðist engan áhuga hafa á áframhaldandi samskiptum við konuna og sagðist sjálfur vilja að konan sætti nálgunarbanni gagnvart honum. Þrátt fyrir það lét hann ekki af áreitinu og ógnunum við konuna. Í janúar á þessu ári var fallist á nálgunarbann gegn manninum og krafist framlengingar á banninu nú.

Í úrskurði Lansdréttar er talið fullljóst að friðhelgi hennar yrði ekki vernduðu með vægari hætti en nálgunarbanni. Lögreglustjórinn á Suðurlandi krafðist þess að maðurinn sætti nálgunarbanni í 12 mánuði. Með úrskurði sínum í vikunni var ákvörðun lögreglustjóra staðfest en tímalengd þess var stytt í sex mánuði fyrir Landsrétti, sem þótti hæfilegt „eftir atvikum,“ eins og það er orðað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×