Fótbolti

Þurfi að sýna grimmd gegn lítt þekktum and­stæðingi: „Á svo margt eftir að gerast“

Aron Guðmundsson skrifar
Óskar Hrafn stýrir sínum mönnum í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld
Óskar Hrafn stýrir sínum mönnum í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Stemningin er góð í her­búðum karla­liðs Breiða­bliks í fót­bolta sem hefur veg­ferð sína í Evrópu í dag á heima­velli gegn Tre Penne frá San Marínó. Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálfari liðsins, hefur þurft að nýta sér króka­leiðir til þess að afla sér upp­lýsingar um and­stæðinginn en segist hafa góða mynd af því sem er í vændum.

Forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta hefst í dag á Kópavogsvelli og í kvöld hefja Íslandsmeistarar Breiðabliks vegferð sína í Evrópukeppni í undanúrslitaleik gegn Tre Penne frá San Marínó.

„Þetta leggst mjög vel í mig, það ríkir mikil til­hlökkun í leik­manna­hópnum og er um að ræða skemmti­legt krydd fyrir okkur í sumarið,“ segir Óskar Hrafn, þjálfari Blika, í sam­tali við Vísi.

And­stæðingur kvöldsins er Tre Penne frá San Marínó, lands­meistari þar í landi og lið sem hefur gengið erfið­lega fyrir Óskar og hans starfs­lið að afla sér upp­lýsinga um.

„Það hefur ekki verið ein­falt. Upp­tökur af leikjum þeirra í deildinni heima fyrir liggja ekki á þeim greiningar­for­ritum sem við höfum að­gang að. Við höfum því þurft að fara króka­leiðir til þess að fá upp­tökur af leikjum þeirra og teljum okkur hafa þokka­lega skýra mynd af þeim.

Vissu­lega hafa átt sér stað tölu­verðar manna­breytingar hjá liðinu með fimm til sex nýjum leik­mönnum og því um tölu­vert breytt lið hjá þeim frá liðinu sem tryggði þeim meistara­titilinn heima fyrir fyrir um mánuði síðan.“

Þurfa að einblína á hraða og grimmd

Óskar Hrafn býst við leik þar sem Breiða­blik muni hafa boltann meira.

„Tre Penne mun bíða og reyna að sækja hratt á okkur, reyna að not­færa sér hver þau mis­tök sem við gætum gert í okkar upp­spili. Við þurfum því að gera hlutina hratt, þar liggur grunnurinn að góðri frammi­stöðu og góðum úr­slitum fyrir okkur.

Við þurfum að spila boltanum hratt, þurfum að sækja hratt, pressa þá af grimmd og verjast af grimmd ofar­lega á vellinum. Það er lykillinn.“

Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks í Evrópuleik liðsins gegn Istanbul Basaksehir í fyrraVísir/Getty

Erfitt að meta styrkleika liðanna

Fjögur lið taka þátt í for­keppninni sem saman­stendur af undan­úr­slitum og úr­slita­leik sem fer fram á föstu­daginn kemur en sigur­lið keppninnar tryggir sér ein­vígi við írska liðið Sham­rock Rovers í undan­keppni Meistara­deildarinnar.

Auk Breiða­bliks og Tre Penne eru Inter Club d´Es­cald­es frá Andorra og Buducnost frá Svart­fjalla­landi einnig í um­ræddri for­keppni og mætast þau akkúrat í fyrri undan­úr­slita­leiknum á Kópa­vogs­velli sem hefst klukkan eitt.

Myndirðu segja að Breiða­blik sé lík­legast til af­reka í þessari for­keppni af þessum liðum?

„Það er voða­lega erfitt fyrir mig að segja til um það. Við spiluðum við Buducnost í fyrra og það er öflugt og líkam­lega sterkt lið. Mér finnst því voða­lega erfitt að segja að við séum eitt­hvað sigur­strang­legri heldur en aðrir.

Maður mun hafa skýrari mynd af styrk­leikum allra liðanna eftir leiki dagsins en staðan er náttúru­lega þannig að við ætlum okkur að vinna þennan leik í kvöld og tryggja okkur í úr­slita­leikinn. Svo er sá leikur bara með sitt eigið líf.

Það má ekki gera mikið af mis­tökum í Evrópu­leikjunum, þér er refsað fyrir þau. Við þurfum bara að eiga virki­lega sterka viku til þess að gera eitt­hvað og fara á­fram í undan­keppnina.“

Skemmtilegt ævintýri

Gengi Breiða­bliks heima fyrir í Bestu deildinni undan­farið hefur verið dá­lítið stöngin út og í síðustu um­ferð lá liðið 5-2 gegn grönnum sínum í HK.

Er kær­komið á þessum tíma­punkti að skipta að­eins um fókus og ein­blína á þessa Evrópu­leiki?

„Aðal­lega erum við bara að horfa á þetta þannig að Evrópu­leikirnir eru skemmti­leg til­breyting fyrir okkur. Frá þessum leikjum eigum við góðar minningar undan­farin tvö ár og oft á tíðum hefur þátt­taka okkar í Evrópu­leikjum orðið að góðum takti fyrir okkur inn í seinni hluta mótsins.

Fyrst og síðast er þetta auð­vitað bara skemmti­legt ævin­týri fyrir okkur að taka þátt í. Það eru for­réttindi að spila í Evrópu­keppni, for­réttindi að fá að máta sig við er­lend lið og vera full­trúi Ís­lands í þessum keppnum. Það er aðal­lega það sem við tökum frá þessu. Deildin bíður bara eftir okkur og við tökum á henni þegar að þar að kemur.“

Breiðablik hefur háð eftirminnileg einvígi við þekkt félög í Evrópukeppni undanfarin ár. Til að mynda mætti liðið Aberdeen frá Skotlandi á Laugardalsvelli árið 2021.Vísir/Getty

„Auð­vitað er það þannig að maður reynir að fara eins langt og maður kemst í þessu. Þegar að Evrópu­keppnin setur maður ekki ein­hvern á­kveðinn punkt á kortið og segist ætla að stoppa þar. Maður reynir að komast eins langt og kostur er.

Við þurfum hins vegar að vera raun­sæir og átta okkur á því að það að fara langt í Evrópu­keppninni, jafn­vel lengra en við höfum farið síðustu tvö ár, sem er í þriðju um­ferð í Sam­bands­deildinni, þá þarf mjög margt að ganga upp.

Þú þarft að eiga fram­úr­skarandi leiki, þarft að vera heppinn með and­stæðinga og allir þínir bestu leik­menn þurfa að vera heilir og í sínu besta standi.“

Á margt eftir að gerast

Það sé því auð­veldara að setja sér frammi­stöðu mark­mið þegar kemur að þátt­töku í Evrópu­keppni heldur en úr­slita­mark­mið.

„Frammi­stöðu mark­miðið verður að vera það að vera betri í teigunum á móti liðinu sem eru fyrir fram kannski talin jafn sterk og eða betri en við á pappírnum. Það held ég að sé mark­miðið okkar og við verðum svo bara að sjá til hvert það leiðir okkur.

Þetta er svo löng leið núna og erfitt að hugsa eitt­hvað lengra heldur en bara á þessa ein­stöku for­keppni því það á svo margt eftir að gerast á þessari viku.

Við höfum fundið það, að þegar að við spilum á móti góðum liðum, þá megum við ekki slökkva á okkur þegar að við erum að verjast því þá verður okkur refsað. Við þurfum að vera betri í að nýta þau færi sem við fáum, sýna meiri ein­beitingu í teigunum báðum.“

Leikur Breiða­bliks og Tre Penne í for­keppni Meistara­deildar Evrópu hefst klukkan 19:00 í kvöld og verður sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport. Út­sendingin þar hefst klukkan 18:50.

Þá er fyrri leikur for­keppninnar, milli Inter Club d´Es­cald­es og FK Buducnost, einnig sýndur í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport en flautað verður til leiks á Kópa­vogs­velli í þeim leik klukkan 13:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×