Umfjöllun og viðtöl: FH - Þróttur 0-0 | Markalaust í Hafnarfirði

Andri Már Eggertsson skrifar
fh fagnar
Vísir/Hulda Margrét

FH og Þróttur gerðu markalaust jafntefli á Kaplakrikavelli. Fyrri hálfleikur var góð skemmtun þar sem FH hélt betur í boltann en Þróttur fékk hættulegri færi. Það gerðist lítið sem ekkert í síðari hálfleik en þegar tæplega fjórar mínútur voru eftir fékk Shaina dauðafæri en Íris Dögg varði frábærlega.

Það var blíða í Hafnarfirði og búningarnir voru ansi líkir sérstaklega þegar sólin skein. FH var í sínum hvítu búningum, Þróttarar voru í ljósbláum búning og bæði lið voru í svörtum stuttbuxum. Þróttur skipti um búning í hálfleik og fór í rauðu og hvítu treyjuna sem Þróttur spilar vanalega í á heimavelli.

FH byrjaði betur og Esther Rós Arnarsdóttir fékk tvö álitleg færi á fyrstu fimmtán mínútunum. Fyrst var Esther ekki í nægilega góðu jafnvægi og skot hennar framhjá. Skömmu seinna fékk hún aftur sendingu frá vinstri inn í teig en í þetta skipti náði hún ekki að taka boltann niður.

Það var hins vegar Þróttur sem átti fyrsta skotið á markið. Sierra Marie Lelii komst í gott skotfæri inn í vítateig en Aldís Guðlaugsdóttir varði frábærlega.

Þegar tæplega tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fékk Tanya Laryssa Boychuk dauðafæri. Katla Tryggvadóttir tók hornspyrnu sem rataði á fjærstöng þar sem Tanya var alein ansi nálægt markinu en skot hennar fór framhjá.

Staðan í hálfleik var markalaus 0-0.

Síðari hálfleikur fór rólega af stað. FH-ingar héldu betur í boltann en ógnuðu lítið marki gestanna. Báðir þjálfararnir vildu ferska vinda inn á völlinn og gerðu báðir tvöfalda breytingu eftir tæplega klukkutíma leik.

Þegar tæplega fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fékk Shaina Faiena Ashour dauðafæri til að brjóta ísinn. Mackenzie átti góða sendingu út í teiginn þar sem Shaina tók viðstöðulaust skot en Íris Dögg Gunnarsdóttir varði frábærlega.

Fleiri urðu færin ekki og leikurinn endaði með markalausu jafntefli 0-0.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

Færin voru af skornum skammti í kvöld. Bæði lið fengu tvö dauðafæri til að brjóta ísinn en nýttu þau ekki og leikurinn endaði því með markalausu jafntefli.

Hverjar stóðu upp úr?

Íris Dögg Gunnarsdóttir átti markvörslu þegar tæplega fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma sem var á götuvirði marks. Shaina Faiena Ashour átti laglegt skot en Íris varði afar vel. 

Esther Rós Arnarsdóttir var allt í öllu í sóknarleik FH í fyrri hálfleik. Það skapaðist mikil hætta í kringum hana en henni tókst ekki að koma boltanum í markið. 

Hvað gekk illa?

Þrátt fyrir að færin hafi ekki verið mörg þá fengu bæði lið dauðafæri til þess að brjóta ísinn. Tanya Laryssa Boychuk fékk dauðafæri til að koma Þrótti yfir. Tanya var alein á fjærstöng þar sem hún fékk sendingu nálægt marki en skot hennar fór framhjá. 

Shaina Faiena Ashour fékk síðasta færi leiksins þar sem hún átti fínt skot en Íris Dögg varði afar vel frá henni. 

Hvað gerist næst?

Næsta mánudag mætast Þróttur og Selfoss klukkan 19:15.

FH fær Val í heimsókn þriðjudaginn eftir viku klukkan 19:15.

„Eitt af fáum skiptunum sem dómarinn gerði eitthvað rétt í kvöld var að leyfa okkur að breyta um treyju í hálfleik“

Nik fannst stigið sanngjarnt í kvöldVísir/Anton Brink

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, var nokkuð brattur eftir markalaust jafntefli gegn FH.

„Bæði lið fengu 1-2 dauðafæri til að klára leikinn en nýttu þau ekki. Mér fannst gæðin í leiknum ekki vera mikil þar sem bæði lið gerðu mistök og markalaust jafntefli var sanngjarnt,“ sagði Nik Chamberlain og hélt áfram.

„Mér fannst við þurfa að nýta færin betur. Á síðasta þriðjungi tókum við rangar ákvarðanir. Varnarlega fannst mér við góðar og þetta var leikur varnarinnar.“

Þróttur skipti um treyju í hálfleik og að mati Nik var það eitt af fáu skiptum sem dómarinn gerði vel í kvöld var að láta Þrótt skipta um treyju í hálfleik þar sem Þróttur byrjaði í ljósbláum búning sem var líkur búningi FH.

„Þegar sólin skín er erfitt að vera í þessum treyjum og við vorum með rauðu og hvítu búningana okkar til öryggis og við hefðum átt að byrja leikinn þannig. Eitt af fáum skiptunum sem dómarinn gerði eitthvað rétt í kvöld var að leyfa okkur að breyta um treyju í hálfleik,“ sagði Nik Chamberlain að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira