Erlent

Brexit eftir­sjá í hæstu hæðum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Ósáttur mótmælandi í Lundúnum á þessu ári.
Ósáttur mótmælandi í Lundúnum á þessu ári. EPA

Stuðningur við aðild að Evrópusambandinu hefur ekki verið hærri í að minnsta kosti tíu ár í Bretlandi. Aðeins í einu kjördæmi eru fleiri á þeirri skoðun að útganga úr Evrópusambandinu hafi verið rétt ákvörðun en röng.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum í Bretlandi vilja 58 prósent svarenda ganga aftur inn í Evrópusambandið. 42 prósent telja það hafa verið rétta ákvörðun að ganga út úr Evrópusambandinu.

Síðan Bretar kusu um útgönguna, þann 23. júní árið 2016, hafa þeir sem vilja ganga aftur í Evrópusambandið yfirleitt verið fleiri en þeir sem töldu ákvörðunina rétta. Hefur verið talað um brexit-eftirsjá í því samhengi.

Munurinn hefur hins vegar sjaldan verið mikill, hvor blokkin rétt um 50 prósent. Síðan árið 2021 hefur munurinn verið að aukast.

Vöruskortur og verðhækkanir

Bretland hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika eftir útgönguna, sem var gengið frá með samningum árið 2020. Vöruflutningar til landsins hafa gengið brösuglega og iðulega komið upp vöruskortur. Þá hefur verðlag í landinu hækkað mikið, umfram þær hækkanir sem önnur ríki hafa verið að glíma við, meðal annars vegna stríðsins í Úkraínu og orkukrísuna.

Stuðningurinn við aðild er mestur í stórborgum eins og London, Birmingham og Manchester sem og í Skotlandi. Í sumum kjördæmum er stuðningurinn yfir 70 prósent.

Fylgi Íhaldsflokksins er í kjallaranum og forsætisráðherranum Rishi Sunak hefur ekki tekist að snúa taflinu við.EPA

Aðeins í einu kjördæmi af 650 mælist minni stuðningur með aðild en útgöngu, Boston og Skegness í Lincoln-skíri á austurströnd Bretlands.

Óánægja með Íhaldsflokkinn

Þá er stuðningurinn við stjórn Íhaldsflokksins, sem studdi útgönguna, í kjallaranum. Flokkurinn hefur mælst með undir 30 prósenta fylgi í tæpt ár á meðan Verkamannaflokkurinn hefur verið að mælast með um 45 prósenta fylgi og Frjálslyndir demókratar yfir 10 prósentum.

Þrátt fyrir að stuðningurinn við aðild að Evrópusambandinu hafi rokið upp í Bretlandi er hann ekki jafn mikill og í flestum löndum sem eru enn þá í því. 87 prósent Spánverja styðja veru landsins í sambandinu, 79 prósent Dana, 70 prósent Svía, 69 prósent Þjóðverja, 63 prósent Ítala og 62 prósent Frakka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×