Erlent

Fréttir hverfa af Face­book í Kanada

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjölmiðlafyrirtæki í Kanada hafa fagnað lagasetningunni.
Fjölmiðlafyrirtæki í Kanada hafa fagnað lagasetningunni. AP/Thibault Camus

Fréttir munu nú smám saman hverfa af Facebook í Kanada, eftir að þingið þar samþykkti umdeild lög sem skylda fyrirtæki á borð við Meta og Google til að ganga til samningaviðræðna við fjölmiðla og greiða þeim fyrir efni sem birtist notendum þeirra.

Meta sá sig tilneytt til að grípa til ráðstafana í Ástralíu vegna svipaðrar löggjafar og notendur þar gátu um tíma hvorki lesið né deilt fréttum á Facebook. Samtal við stjórnvöld leiddi hins vegar til málamiðlunar.

Forsvarsmenn Meta segja löggjöfina meingallaða og byggða á misskilningi á því hvernig Facebook virkar. Það sé ekki raunhæft að ætlast til þess að Meta greiði fyrir efni eða tengla sem það ber enga ábyrgð á né séu fréttir ástæða þess að fólk noti Facebook.

Google hefur sömuleiðis sagt ómögulegt að framfylgja lögunum en segist munu vinna með stjórnvöldum að því að finna lausn. 

Stjórnvöld segja lögin hins vegar nauðsynleg til að jafna leikinn á hinum stafræna fréttamarkaði og tryggja fjölmiðlafyrirtækjum sem berjast í bökkum sanngjarna þóknun fyrir efni sem ratar á samfélagsmiðla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×