Innlent

Hannes af­henti Selenskí trúnaðar­bréf sitt

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hannes Heimisson, sendiherra, afhendir Selenskí Úkraínuforseta trúnaðarbréf sitt.
Hannes Heimisson, sendiherra, afhendir Selenskí Úkraínuforseta trúnaðarbréf sitt. Stjórnarráðið

Hannes Heimisson, sendiherra Íslands í Varsjá, afhenti í gær Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu.

Athöfnin fór fram við kirkju heilagrar Soffíu í Kænugarði. 

Að henni lokinni átti Hannes tvíhliða fund með forsetanum þar sem þeir ræddu um söguleg tengsl Íslands og Úkraínu og mikilvægi samstöðu með Úkraínu gagnvart innrásarstríðinu.

Ísland muni styðja við málstað Úkraínu

Í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að Hannes hafi borið Úkraínuforseta kveðju íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar og hann hafi lýsti aðdáun á hugrekki Úkraínumanna gegn innrás Rússlands. Einnig greindi hann frá því að mikil samstaða væri á Íslandi um stuðning við Úkraínu.

Þá greindi Hannes frá því á fundi þeirra að Ísland myndi leggja áherslu á að styrkja samskipti við Úkraínu á næstu árum, taka þátt í að styðja varnarbaráttu landsins og uppbyggingu og styðja áfram við Úkraínu með framlögum í tengslum við varnir landsins og mannúðarmál. 

Þessu til viðbótar sagði hann Ísland muni leggja áherslu á að styðja við málstað Úkraínu með pólitískum hætti ásamt því að efla viðskiptaleg og menningarleg tengsl milli landanna.

Þakkaði Íslendingum fyrir stuðninginn

Í tilkynningu á vef úkraínskra stjórnvalda kemur fram að Zelensky hafi þakkað Íslandi fyrir stuðning við Úkraínu. 

Óskaði hann Íslandi til hamingju með formennsku í Evrópuráðinu og nýafstaðin leiðtogafund í Reykjavík. Í því samhengi tiltók hann sérstaklega stofnun tjónaskrárinnar sem er liður í að draga Rússland til ábyrgðar fyrir þann skaða sem innrás þeirra hefur valdið.

Ísland opnaði sendiráð í Póllandi á síðasta ári en auk Póllands eru Búlgaría, Rúmenía og Úkraína í umdæmi sendiráðsins. Áður var Úkraína á meðal umdæmisríkja sendiráðs Íslands í Helsinki. 

Nú þegar trúnaðarbréf hefur verið afhent getur Hannes formlega hafið störf sem sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu. Sendiherrar fjögurra annarra ríkja gagnvart Úkraínu afhentu trúnaðarbréf í sömu athöfn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×