Erlent

Tveggja ára drengur skaut ólétta móður sína óvart til bana

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Laura Ilg lést af sárum sínum eftir að tveggja ára sonur hennar skauta hana óvart í bakið. Skammbyssan var í eigu Alek Ilg, eiginmanns Lauru.
Laura Ilg lést af sárum sínum eftir að tveggja ára sonur hennar skauta hana óvart í bakið. Skammbyssan var í eigu Alek Ilg, eiginmanns Lauru. Facebook/Skjáskot

Tveggja ára drengur í Ohio skaut móður sína, sem var gengin átta mánuði á leið, óvart í bakið þegar hann lék sér með skammbyssu sem hann fann í náttborði foreldra sinna. Móðirin og ófætt barn hennar létust bæði.

Hin 31 árs gamla Laura Ilg hringdi í neyðarlínuna á föstudagseftirmiðdag og sagði að hún hefði verið skotin í bakið af tveggja ára gömlum syni sínum.

Þegar lögregluþjónar mættu á vettvang komu þeir að Lauru, sem var komin 33 vikur á leið, og tveggja ára syni hennar auk hlaðinnar hálfsjálfvirkrar skammbyssu. Að sögn lögreglu var Laura með fullri meðvitund og hafi hún greint lögregluþjónunum frá framvindu atburða. 

Laura var í kjölfarið flutt í hraði á Fisher-Titus-læknastöðina þar sem skurðlæknar framkvæmdu bráðakeisaraskurð á henni. Þeim tókst hins vegar ekki að bjarga ófæddu barni Lauru og um þremur tímum síðar var hún sjálf úrskurðuð látin.

Lék sér með byssuna á meðan móðirin þvoði þvott

Lögreglan segir að byssan, sem var í eigu Alek Ilg, eiginmanns Lauru, hafi vanalega verið geymd í náttborði í svefnherbergi hjónanna. Laura greindi lögreglunni frá því að svefnherbergið væri vanalega læst. Þá hafi verið fjöldi barnahliða um allt hús til að hefta för barnsins. 

Hún sagði drengnn hafa einhvern veginn komist inn í herbergið og byrjað að leika sér með byssuna á meðan hún var að þvo þvott.

Þegar lögregluþjónar grannskoðuðu heimilið fundu þeir tvö skotvopn til viðbótar, hlaðna haglabyssu í fataskáp í hjónaherberginu og loftriffill í skáp í tölvuherbergi hússins.

Að sögn Cleveland 19 News er drengurinn hjá föður sínum á meðan rannsókn lögreglu stendur yfir. Alek Ilg greindi frá fréttunum hræðilegu á Facebook þar sem hann sagði að Laura og ófæddur sonur þeirra, Talisen, hefðu látist á föstudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×