Fótbolti

Þrenna frá Col­bert gegn topp­liðinu | Fram náði í mikil­væg stig

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindavík náði í jafntefli gegn Víkingi í kvöld.
Grindavík náði í jafntefli gegn Víkingi í kvöld. Facebooksíða Knattspyrnudeildar UMFG

Jada Colbert skoraði þrjú mörk fyrir Grindavík sem gerði 3-3 jafntefli við topplið Víkings í Lengjudeild kvenna í kvöld. Þá náði Fram í mikilvæg stig í botnbaráttunni.

Grindavík kom fullt sjálfstrauts til leiks í Víkinni í kvöld enda með sigur gegn HK í síðustu umferð í farteskinu en það var fyrsti tapleikur HK í sumar. Víkingar voru í toppsætinu með sex sigra eftir sjö umferðir og áhugaverður leikur framundan.

Það var alvöru skemmtun sem var boðið upp á. Jada Colbert kom Grindavík yfir á 6. mínútu leiksins en Nadía Atladóttir kom Víkingum í 2-1 með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla.

Colbert skoraði sitt annað mark rétt fyrir hálfleik og en á 44. mínútu skoraði Sigdís Eva Bárðardóttir þriðja mark Víkinga og staðan í hálfleik 3-2.

Það var ekki jafn mikið fjör í síðari hálfleik. Grindavík tókst þó að jafna á 71. mínútu og að sjálfsögðu var það Jada Colbert sem fullkomnaði þrennuna. Lokatölur í Víkinni 3-3 en Víkingar eru enn í toppsæti Lengjudeilarinnar og Grindavík lyfti sér upp í 5.sætið með jafnteflinu.

Í Úlfarsárdal tók Fram, sem sat í fallsæti fyrir leikinn, á móti nágrönnum sínum úr Aftureldingu sem var um miðja deild.

Breukelen Woodard kom Fram yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks og Ólína Sif Hilmarsdóttir tvöfaldaði forystu Fram á 70. mínútu. Í uppbótartíma minnkaði Inga Laufey Ágústsdóttir muninn fyrir Aftureldingu en það dugði ekki til. Lokatölur 2-1 og Fram er nú komið uppfyrir KR í tölfunni og úr fallsæti.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar á Fótbolti.net




Fleiri fréttir

Sjá meira


×