Fótbolti

Ofsa­reiði í Bosníu og mót­herjar Ís­lands töluðu við stuðnings­menn

Sindri Sverrisson skrifar
Edin Dzeko og Sead Kolasinac, sem báðir léku á sínum tíma í ensku úrvalsdeildinni, ræddu við stuðningsmenn eftir tapið gegn Lúxemborg.
Edin Dzeko og Sead Kolasinac, sem báðir léku á sínum tíma í ensku úrvalsdeildinni, ræddu við stuðningsmenn eftir tapið gegn Lúxemborg. Skjáskot/@SportSportVideo

Það er óhætt að segja að mikil reiði sé í Bosníu eftir 2-0 tapið á heimavelli gegn Lúxemborg í gærkvöld, í riðli Íslands í undankeppni EM karla í fótbolta.

Allt útlit er fyrir að þjálfari liðsins haldi á brott á mettíma en Faruk Hadzibegic tók við starfinu í janúar á þessu ári.

Bosníski miðillinn sportki.ba hefur það eftir stjórnarmanni í bosníska knattspyrnusambandinu að búist sé við því að Hadzibegic segi af sér, en að annars verði hann rekinn. Sigurinn góði gegn Íslandi í mars, 3-0, virðist því hafa dugað honum skammt en eftir það hefur Bosnía tapað gegn Slóvakíu, Portúgal og Lúxemborg, án þess að skora mark.

Stuðningsmenn Bosníu söfnuðust saman fyrir utan leikvanginn í Zenica í gær, eftir tapið gegn Lúxemborg, og stóðu við girðingu sem leikmenn Bosníu gengu framhjá. Mikill fjöldi lögreglumanna gætti að öryggi leikmanna en tvær af stærstu stjörnum liðsins, Edin Dzeko og Sead Kolasinac, stoppuðu hins vegar og gáfu sér tíma til að ræða við stuðningsmennina.

Miðað við bosníska miðla beinist reiði fólks fyrst og fremst að þjálfaranum Hadzibegic sem eins og fyrr segir virðist vera að missa starfið sitt.

Það verður því að koma í ljós hver stýrir Bosníu í leiknum mikilvæga á Laugardalsvelli í september, þegar undankeppnin heldur áfram, og gegn Liechtenstein nokkrum dögum fyrr. Bæði Ísland og Bosnía þurfa nauðsynlega á stigum að halda enda með aðeins þrjú stig hvort eftir fjórar umferðir af tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×