Innlent

Flug­stjóri Icelandair fylgdi ekki leið­beiningum

Árni Sæberg skrifar
Hliðarstýri flugvélarinnar skemmdist í árekstrinum.
Hliðarstýri flugvélarinnar skemmdist í árekstrinum. RANNSÓKNARNEFND SAMGÖNGUSLYSA Á BRETLANDI.

Flugvél Icelandair hafði ekki verið lagt almennilega í stæði á Heathrow flugvelli í Bretlandi þegar vængur flugvélar Korean air rakst í hliðarstýri á stéli flugvélarinnar. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa í Bretlandi segir að skortur á leiðsögn á flugvellinum vegna manneklu hafi einnig átt þátt í óhappinu.

Þann 28. september í fyrra lenti Boeing 757 þota Icelandair í minniháttar árekstri á Heathrow. Engum varð meint af en hliðarstýri flugvélarinnar skemmdist, sem og vinstri vængur flugvélar suður-kóreska flugfélagsins Korean air. 

Menntaskólanemendur, sem voru á leið heim með flugvélinni eftir námsferð í Lundúnum, lýstu árekstrinum í samtali við Vísi á sínum tíma. Þeir sögðu áreksturinn hafa verið mikinn skell.

Flugstjórinn vanur því að fylgja öðru verklagi

Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að áreksturinn hafi orðið vegna þess að kóresku flugvélinni var ekið fram hjá hinni íslensku, þar sem stjórnendur hennar töldu þá í íslensku vera að fullu lagt í stæði. Þá hafi flugstjóri hennar talið að árekstrarmerki logaði ekki, þrátt fyrir að það hafi gert það.

Rannsóknarnefndin segir að flugstjóri hafi virt almennar leiðbeiningar, þess efnis að beygja ekki inn í stæði fyrr en leiðbeiningar lægju fyrir, að vettugi. Flugstjórinn sagði við rannsóknina að hann væri vanur að beygja inn í stæði og bíða þar eftir nánari leiðbeiningum.

Þá segir að frumorsök slyssins hafi verið skortur á leiðsögn á Heathrow vegna manneklu. Það væri viðvarandi vandamál á flugvellinum, sem allir hlutaðeigandi þyrftu að takast á við í sameiningu.


Tengdar fréttir

Vél Icelandair lenti í minni­háttar á­rekstri

Vél Icelandair lenti í minniháttar árekstri við vél frá Koreanair á flugvellinum Heathrow í London í í kringum klukkan átta í kvöld. Enginn slasaðist og engar tafir eru á flugum til og frá flugvellinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×