Innlent

Jón nánast örugglega á förum úr ráðherraliðinu

Jakob Bjarnar skrifar
Guðrún hefur bankað fast á dyrnar og vill komast inn. Nú lítur allt út fyrir að Bjarni ætli loks að láta verða af því að hleypa henni inn og út fer Jón Gunnarsson. Því munu margir í stjórnarandstöðunni fagna en víst er að Sjálfstæðisflokkurinn á við nokkurn vanda að etja.
Guðrún hefur bankað fast á dyrnar og vill komast inn. Nú lítur allt út fyrir að Bjarni ætli loks að láta verða af því að hleypa henni inn og út fer Jón Gunnarsson. Því munu margir í stjórnarandstöðunni fagna en víst er að Sjálfstæðisflokkurinn á við nokkurn vanda að etja. vísir/vilhelm/samsett

Boðað hefur verið til ríkisráðsfundar á mánudaginn næsta og ekki er gert ráð fyrir öðru en að þá verði gengið frá breytingum á ráðherraliði í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur: Að Jón Gunnarsson hverfi úr ríkisstjórn og Guðrún Hafsteinsdóttir komi inn.

Ríkisstjórnin hélt sinn hefðbundna fund í morgun og ræddi Heimir Már Pétursson fréttamaður við Jón í lok hans. Að sögn Jóns gerði hann ekki ráð fyrir öðru en að hann væri að hætta í ríkisstjórninni.

Ert þú að fara úr ráðherraliðinu?

„Það verður bara að koma í ljós. Það er, eins og þú segir, ríkisráðsfundur á mánudaginn og þá verður væntanlega þær breytingar sem hafa verið boðaðar.“

Hefur formaður flokksins eitthvað rætt þessi skipti við þig?

„Nei við höfum ekki rætt þetta sérstaklega. Hann fundar eflaust með þingflokknum í þessari viku til að fara yfir sínar hugmyndir.“

Jón segist sjá eftir því að fara úr dómsmálaráðuneytinu en hefur þó þann fyrirvara að ef sú verður raunin.

„Það er alltaf eftirsjá fyrir þann sem er í pólitík að hverfa úr þessu. Við erum að mörgu leyti í miðri á en svona er bara pólitíkin og það verður bara að koma í ljós hver ákvörðun þingflokks og formanns verður í þessum efnum.“

Guðrún bankað fast á dyrnar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið rukkaður í sífellu um það loforð þessa efnis síðan hann sagði að breytingar yrðu gerðar að átján mánuðum liðnum.

Átján mánuðirnir sem Bjarni gaf sér til að stokka upp í ríkisstjórninni eru liðnir, hvernig sem er reiknað. Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, hefur bankað fast á dyrnar og vill komast inn. Það hefur hún gert í nokkrum viðtölum og rukkað Bjarna um loforð sem hann gaf þess efnis.

Guðrún flutti athyglisverða ræðu um þetta efni í Vikulokunum 27. maí, útvarpsþætti Rásar 1. Hún var þá spurð um þessa stöðu með þeim formála umsjónarmanns að Bjarni hafi tilkynnt að Jón yrði ráðherra í 18 mánuði og síðan myndi Guðrún taka við: Guðrún sagði í janúar að hún yrði ráðherra í mars, þegar átján mánuðir yrðu liðnir frá kosningum.

„Eins og Bjarni var búinn að lofa. Hann stóð ekki við það,“ sagði Sunna Valgerðardóttir umsjónarmaður þáttarins: Ekkert fararsnið sé á Jóni sem virðist líða ágætlega. Og hann hafi „hótað því að víkja af þingi missi hann ráðherrastólinn“. Þetta þýðir þá að varamaður hans komi inn á þingið sem er Arnar Þór Jónsson, sem hefur verið afar gagnrýninn á stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Og talið hann hafa horfið frá grunngildum sinnar stefnu. Sunna spyr:

Ertu svekkt að ekki sé búið að standa við þau loforð sem gefin voru í upphafi kjörtímabilsins?

„Ég sagði þetta í janúar og hef síðan sagt að líklega kann hvorki Jón Gunnarsson né ég að telja. Ég miðaði við að þessir átján mánuðir væru frá kosningum. Jón miðar við að það sé frá því að ríkisstjórn var mynduð. Ef við miðum við frá kosningum hefði ég átt að taka við í mars.“ 

Stillti sér upp sem ráðherraefni

Guðrún segir að ef miðað er við síðan ríkisstjórn var mynduð þá er það núna í lok maí. Þá eru þeir 18 mánuðir á enda. En það er víst að Bjarni hefur dregið lappirnar við að skipta Jóni út, að hennar mati og ýmissa annarra sem vilja helst ekki hafa Jón í dómsmálaráðuneytinu. 

En á móti kemur að Jón hefur styrkt stöðu sína verulega innan þingflokksins í ráðherratíð sinni og fer fyrir ákveðnum sjónarmiðum þar sem Bjarni á erfitt með að forsmá. Sjónarmiðum sem margir innan flokksins telja að hafi látið undan í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. En Guðrún hefur ekki gefið tommu eftir.

„Bjarni sagði líka á sínum tíma þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að Jón sæti í ríkisstjórninni að hámarki 18 mánuði. Ég fór ekkert í grafgötur með það þegar ég steig inn í pólitík 2021 og fór í prófkjör í mínu kjördæmi lagði ég af stað með það í farteskinu, og ég stillti mér upp sem ráðherraefni. Og ég sigra prófkjörið. Og ég sigra kosningarnar í Suðurkjördæmi. Við erum með næst mest fylgi fyrir utan kjördæmi formannsins. Við munum öll að Framsóknarflokkurinn var á miklu flugi. Ég sigra í kjördæmi formanns Framsóknarflokksins og er 1. þingmaður. Ég gerði skýlausa kröfu til þess að ég væri hluti af ráðherrum ef flokkurinn færi í ríkisstjórn. Þess vegna var ég svekkt á þeim tíma,“ sagði Guðrún.

Samkvæmt heimildum Vísis þá mun Jón ekki hætta þingmennsku þó hann láti af ráðherraembætti, ekki strax í það minnsta, þannig að þeir sem hafa haft af því þungar áhyggjur að varamaður hans, Arnar Þór Jónsson, muni reynast sem minkur inn í þegar órólegan þingflokkinn vegna slaks gengis flokksins í skoðanakönnunum og erfiðrar stöðu innan flokks geta andað rólegar. Í bili.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×