Guðrún segir í tilkynningu um framboðið að síðustu vikur og mánuði hafi hún fengið mikla hvatningu víðsvegar úr kjördæminu til að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðismanna. Hún kveðst þakklát öllum sem hafa stutt hana og hvatt.
„Suðurkjördæmi býr yfir miklum tækifærum sem brýnt er að efla. Ég er tilbúin að taka þátt í þeirri vinnu og tel að reynsla mín og þekking muni nýtast vel. Í Suðurkjördæmi er iðandi og gott mannlíf og hér höfum við allt sem þarf til að vera leiðandi á öllum sviðum atvinnulífsins. Ég trúi því að saman getum við eflt atvinnugreinar okkar og bætt lífskjör okkar sem hér búum og störfum,“ segir Guðrún.
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins var í fyrsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi í síðustu Alþingiskosningum. Hann leiddi listann einnig í kosningunum árið 2016, þegar hann var fyrst kjörinn á þing fyrir flokkinn. Ekki náðist í Pál við vinnslu fréttarinnar í kvöld.
Lengst af starfað hjá fjölskyldufyrirtækinu Kjörís
Guðrún er fædd 9. febrúar 1970 og er dóttir hjónanna Laufeyjar Valdimarsdóttur og Hafsteins Kristinssonar. Guðrún er í sambúð með Hans Kristjáni Einarssyni Hagerup, gullsmið og eiga þau samtals sex börn.
Hún er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, B.A gráðu í mannfræði frá HÍ 2008 og þá hefur hún lokið diplóma námi í jafnréttisfræðum einnig frá HÍ. Hún hefur starfað nær allan sinn starfsferil hjá fyrirtæki fjölskyldunnar Kjörís ehf. í Hveragerði.
Síðastliðinn áratug hefur Guðrún setið í stjórnum margra fyrirtækja og félaga. Hún var kjörin formaður Samtaka iðnaðarins árið 2014 og var þar formaður til 2020. Þá hefur hún einnig átt sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins, Háskóla Reykjavíkur, Bláa Lónsins og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.