Innlent

Brúð­hjón og fyrir­tæki flykkjast til út­landa

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ásdís Gunnarsdóttir, kjólameistari og eigandi Loforðs.
Ásdís Gunnarsdóttir, kjólameistari og eigandi Loforðs. stöð 2/arnar

Brúðarkjólameistari finnur fyrir því að fleiri en áður kjósi að halda brúðkaup erlendis og segir það geta verið ódýrara en að halda veisluna hér á landi. Þá virðist lítið hafa dregið úr árshátíðarferðum fyrirtækja til útlanda þrátt fyrir verðbólgu. 

Á meðan seðlabankastjóri svitnaði yfir tásumyndum á Tenerife í vetur virðast starfsmannafélög fyrirtækja hafa staðið í ströngu við að skipuleggja árshatíðarferðir til útlanda. Slíkar ferðir eru alþekktar og virðist ekkert hafa dregið úr þeim þrátt fyrir verðbólgu.

Til að mynda fór Þjóðleikhúsið til Barcelona, Skatturinn til Möltu, Síldarvinnslan til Gdansk, Kviku banki til Króatíu, Verkís til Króatíu. Sjóvá og Vís til Haag og Ríkiskaup til Rómar.

Vorið og sumarið er einnig tími brúðkaupa en eigandi brúðarverkstæðisins Loforðs segir brjálað að gera. Allur gangur sé á því hvar fólk gifti sig en sjálf finnur hún fyrir því að fleiri en áður kjósi að halda brúðkaup í útlöndum.

Ódýrara?

Hvers vegna heldur þú að svo sé?

„Ég held að það séu nokkrar ástæður en ég hef heyrt frá einhverjum að það sé ódýrara því þú kaupir þetta í pakkavís sem líka einfaldar þér rosalega mikið, þannig þú þarft ekki að gera neitt sjálfur og allt tilbúið út frá þema sem þú velur,“ segir Ásdís Gunnarsdóttir, kjólameistari og eigandi Loforðs.

Þá spili sól og gott veður stóran þátt í þeirri ákvörðun að halda brúðkaup erlendis.

Heldur þú að þetta sé að einhverju leyti tískubylgja?

„Ég veit það ekki. Ég held kannski frekar að Íslendingar geri meira úr brúðkaupum núna. Áður gerðum við svolítið lítið úr þessu og þetta átti aldrei að vera neitt of stórt en núna erum við kannski að leyfa okkur meira og ég held að það fylgi þessu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×