Lagið er langt og tilþrifamikið, rúmar sjö mínútur, en The London Contemporary Orchestra spilar inn á lagið undir stjórn Robert Ames.
Tónlistarmyndbandið við lagið er enn lengra, eða tæpar tíu mínútur. Leikstjóri þess er hinn sænski Johan Renck, sem leikstýrði HBO-seríunni Chernobyl og hefur leikstýrt fjölda tónlistarmyndbanda í gegnum tíðina, þar á meðal fyrir Madonnu, David Bowie, Robbie Williams, Robyn og Beyoncé.
„Ég hef níhilíska sýn á framtíðina. Við erum algjörlega vanmáttug gagnvart okkar eigin heimsku. Sumar hliðar þessara sjónarmiða fléttuðust saman við upplifun mína á þemum Blóðbergs. Tónlistin varð að undirleik minna eigin vesælu hugsana, en litaði þær fegurð eins og tónlistinni einni er máttur til,“ sagði Renck um myndbandið.
Á föstudaginn fer hljómsveitin af stað í tónleikaferðalag um Evrópu og Norður Ameríku sem þegar er uppselt á. Ferðalagið hefst á Meltdown festivalinu með tónleikum í Royal Festival Hall í London.
Sama dag hyggst hljómsveitin gefa út plötuna Átta, þá fyrstu frá hljómsveitinni síðan Kveikur kom út 2013.