Fótbolti

Lille vill kaupa Hákon fyrir rúma tvo milljarða

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson gæti verið á förum frá FCK.
Hákon Arnar Haraldsson gæti verið á förum frá FCK. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Franska úrvalsdeildarfélagið Lille er sagt í viðræðum við dönsku meistarana í FCK um að festa kaup á Skagamanninum Hákoni Arnari Haraldssyni.

Danski miðillinn B.T. greinir frá því að Lille og FCK sitji nú við samningaborðið og að franska félagið vilji fá Hákon í sínar raðir. Fyrr í dag höfðu hinir ýmsu dönsku miðlar greint frá því að ónefnt franskt félag væri á eftir leikmanninum.

Samkvæmt heimildarmönnum B.T. eru forráðamenn Lille tilbúnir að greiða 15 milljónir evra fyrir hinn tvítuga Hákon, en það samsvarar tæplega 2,3 milljörðum íslenskra króna.

Hákon skrifaði nýverið undir nýjan þriggja ára samning við Kaupmannahafnarliðið og er samningsbundinn félaginu til ársins 2027. Það er því nokkuð líklegt að reiða þurfi fram góða summu til að sannfæra félagið um að selja Hákon frá liðinu.

Hákon gekk til liðs við FCK árið 2021 og hefur leikið 39 deildarleiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað átta mörk. Þá á hann einnig að baki níu leiki fyrir íslenska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×