Íslenski boltinn

Á­nægður með sigurinn en mjög flatur leikur

Dagur Lárusson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari toppliðs Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari toppliðs Víkings. Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var ánægður með sigurinn á Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld en sá þó mikla þreytu í sínum mönnum. Leiknum lauk með 3-1 sigri Víkinga sem höfðu ekki unnið í tveimur leikjum í röð.

„Ég er auðvitað mjög ánægður með sigurinn en þetta var frekar flatur leikur og mikið um þreytu í mínu liði,“ byrjaði Arnar Gunnlaugsson að segja.

„Við náðum svona ágætis kafla í fyrri hálfleik þar sem við kláruðum þetta í rauninni. En eins og ég segi þá fannst mér vera þreyta í mínum leikmönnum og mér finnst leikjaálagið hafa náð til okkar. Við erum búnir að spila mikið af leikjum og mikið af spennuþrungnum leikjum og síðan hefur líka verið stutt á milli leikja sem hefur ekki hjálpað,“ hélt Arnar áfram að segja.

„Við vorum eiginlega alveg búnir á því í seinni hálfleiknum en við vissum að það var ekki okkar að sækja eitt né neitt og því vorum við meira í því að spila þéttan varnarleik og reyna að ná upp einhverjum skyndisóknum en það sást vel að það var klárlega enginn ferskleiki ennþá í fótunum á mínum mönnum.“

Arnar talaði um það að hann ætlaði að gefa sínum leikmönnum gott frí vegna landsleikjanna.

„Já það er klárt mál, þeir fá fimm daga frí núna til þess endurhlaða batteríin en síðan tekur við önnur svona törn eftir landsleikina því þá fara Evrópuleikirnir að byrja og síðan undanúrslitin í bikarnum þannig þetta verður mikil keyrsla,“ endaði Arnar Gunnlaugsson að segja eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×