Fótbolti

„Eina sem ég er hræddur við í lífinu er guð og ég sé hann ekki á vellinum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
André Onana er hvergi banginn fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
André Onana er hvergi banginn fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. getty/Mattia Ozbot

Markvörður Inter segir að engin pressa sé á ítalska liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.

Inter mætir þá Manchester City í Istanbúl. City vann tvöfalt heima fyrir og getur með sigri í úrslitaleik Meistaradeildarinnar orðið annað enska liðið til að vinna þrennuna svokölluðu.

Þrátt fyrir að City sé mun sigurstranglegra er engan bilbug á André Onana og félögum hans í Inter að finna.

„Þeir eru líklega besta lið í heimi en þeir verða að sýna það á laugardaginn. Við ætlum að verjast og skrifa söguna. Það verður ekki auðvelt en þeir verða að syna að þeir séu bestir,“ sagði kamerúnski markvörðurinn.

„Af hverju ætti ég ekki að vera rólegur? Ég er slakur. Það er engin pressa á okkur. Við vitum að þetta verður ekki auðvelt. Þetta er fótbolti. Eina sem ég er hræddur við í lífinu er guð og ég sé hann ekki á vellinum. Menn eru menn.“

Onana hefur haldið marki sínu fimm sinnum hreinu í sex leikjum í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar. Aðeins Arsenal hefur haldið oftar hreinu í útsláttarkeppninni í sögu Meistaradeildarinnar, eða sex sinnum tímabilið 2005-06.

Leikur Manchester City og Inter hefst klukkan 19:00 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:15.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.