Innlent

Foreldrar fegnir að leikskóli í Grindavík gleymdist

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Börn að leik í Grindavík.
Börn að leik í Grindavík. vísir/vilhelm

Forsvarsmenn BSRB gleymdu að nefna leikskólann Laut í Grindavík á lista yfir starfsstaði þar sem verkfall er boðað á morgun. Foreldrar eru fegnir en leikskólastjórinn segir um mannleg mistök að ræða. 

Í opinberum vinnudeilum ber deiluaðilum að boða verkföll með fimmtán daga fyrirvara. Í verkfallsboðun BSRB var ekki minnst á leikskóla Grindavíkurbæjar yfir þá starfsstaði þar sem boðað hefur verið til verkfallsins. Bæjarskrifstofa, sundlaug og áhaldahús Grindavíkurbæjar eru hins vegar þar á meðal. 

„Það voru mistök gerð í boðun og ekki minnst á leikskólann þrátt fyrir að kosið hafi verið um það, þannig starfsfólk á þessum leikskóla fara ekki í verkfall á morgun,“ segir Freyja Steingrímsdóttir, samskiptastjóri stéttarfélagsins.

Fríða Egilsdóttir leikskólastjóri Lautar segir foreldra fegna.

„Það eru viðbrögðin sem ég fékk þegar ég sendi póst á föstudaginn,“ segir hún. „Þetta voru bara mannleg mistök hjá BSRB. Þeim fannst þetta miður.“

Tveir leikskólar eru í Grindavík, annar einkarekinn og verður starfsemin þar því ekki fyrir áhrifum verkfalla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×