Fótbolti

Real Madrid hélt öðru sætinu með naumindum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Karim Benzema skoraði í sínum síðasta leik fyrir Real Madrid.
Karim Benzema skoraði í sínum síðasta leik fyrir Real Madrid. Vísir/Getty

Real Madrid gerði í dag 1-1 jafntefli við Athletic Bilbao á heimavelli í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar. Atletico Madrid rétt missti af því að hirða annað sætið af nágrönnum sínum.

Barcelona er fyrir nokkru síðan búið að tryggja sér meistaratitilinn á Spáni og sömuleiðis að mestu ljóst hvaða lið færu í Evrópukeppnir. Real Madrid var í öðru sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina, einu stigi á undan nágrönnum sínum í Atletico.

Real Madrid náði aðeins 1-1 jafntefli á heimavelli gegn Athletic Bilbao. Leikmenn Real þurftu því að bíða eftir úrslitum í leik Atletico til að sjá hvort liðið héldi öðru sætinu. Oihan Sancet kom Athletic Bilbao yfir í fyrri hálfleik en Karim Benzema jafnaði úr víti fyrir Real á 72. mínútu í sínum síðasta leik fyrir félagið.

Angel Correa og Antoine Griezmann fagna eftir mark Correa í dag.Vísir/Getty

Angel Correa leit lengi vel út fyrir að verða frelsari Atletico í dag. Hann kom liðinu í 2-1 gegn Villareal eftir að Nicolas Jackson hafði komið heimaliðinu yfir strax eftir níu mínútna leik. Jorge Pascual Medina jafnaði hins vegar fyrir Villareal á lokaandartökum leiksins og Atletico náði því ekki stigunum þremur sem liðið þurfti til að ná öðru sætinu af Real Madrid.

Real Sociedad endaði í fjórða sæti deildarinnar sem færir liðinu sæti í Meistaradeildinni að ári. Villareal og Real Betis fara í Evrópudeildina og þá tryggði Osasuna sér sæti í Sambandsdeildinni með 2-1 heimasigri á Girona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×