Fótbolti

Arnór hefur leikið sinn síðasta leik í Sví­þjóð í bili

Aron Guðmundsson skrifar
Arnór Sigurðsson skoraði tvívegis í dag.
Arnór Sigurðsson skoraði tvívegis í dag. Norrköping

Arnór Sigurðs­son hefur leikið sinn síðasta leik fyrir IFK Norr­köping, í það minnsta í bili, en gult spjald sem hann fékk í tapi á heima­velli gegn Bromma­pojkarna í dag sér til þess að hann verður í leik­banni í síðasta leik Norr­köping fyrir sumar­frí í sænsku deildinni.

Ís­lendingurinn knái hefur verið á láni hjá IFK Norkköping frá rúss­neska liðinu CSKA Moskvu en Arnór hefur nýtt sér úr­ræði FIFA sem heimilar er­lendum leik­mönnum á mála hjá rús­senskum og úkraínskum fé­lags­liðum að gera hlé á samningi sínum við fé­lögin.

Er gripið til þessa úr­ræðis sökum inn­rásar Rússa í Úkraínu.

Láns­samningur Arnórs hjá IFK Norr­köping rennur út undir lok mánaðar en í dag átti að­eins að vera hans síðasti heima­leikur fyrir fé­lagið.

Hins vegar veldur gult spjald, sem Arnór fékk á 24. mínútu í leik dagsins, því að hann verður í leik­banni í næsta leik IFK Norr­köping gegn Djur­gar­d­en sem átti að verða loka­leikur Arnórs fyrir fé­lagið.

Hlé verður gert á sænsku deildinni í tæpan mánuð og hefst hún aftur með leikjum í byrjun júlí.

Ó­ljóst er á þessari stundu hvað tekur við hjá Arnóri en ekki hefur vantað upp á á­huga frá öðrum fé­lögum á kröftum hans.

Arnór hefur verið einn besti leik­maður sænsku deildarinnar undan­farna mánuði og vill hann nú sanna sig á nýjan leik í stærri deildum Evrópu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.