Fótbolti

Lyng­by bjargaði sér eftir há­spennu í loka­um­ferð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Lyngby með íslenska fánann í stúkunni.
Stuðningsmenn Lyngby með íslenska fánann í stúkunni. Vísir/Getty

Íslendingaliðið Lyngby heldur sæti sínu í dönsku úrvalsdeildinni eftir fádæma dramatík í lokaumferðinni. Horsens og Álaborg falla niður í næst efstu deild.

Fyrir umferðina var spennan gríðarleg. Álaborg, Lyngby og Horsens voru öll með 28 stig en tvö lið falla niður í næst efstu deild. Álaborg var með bestu markatöluna en Lyngby og Horsens voru í fallsætunum.

Lengi vel var markalaust í báðum leikjum. Sú staða hefði auðvitað þýtt að Lyngby og Horsens myndu falla en Kolbeinn Finnsson og Sævar Atli Magnússon voru báðir í byrjunarliði Lyngby og Aron Sigurðarson í byrjunarliði Horsens. Alfreð Finnbogason var hins vegar í leikbanni hjá Lyngby.

Staðan í báðum leikjum var 0-0 í hálfleik en á 74. mínútu kom Alexander Lind Silkeborg yfir í leik liðsins gegn Álaborg. Það þýddi að Álaborg var komið í fallsæti og Lyngby upp í þriðja neðsta sæti.

Lokamínúturnar voru æsispennandi. Lið Horsens og Álaborgar reyndu hvað þau gátu til að ná inn mörkum en ekkert gekk. Þegar flautað var til leiks í Álaborg var ljóst að liðið var fallið í fyrsta sinn í sögunni.

Leik Horsens og Lyngby lauk skömmu síðar. Lyngby hélt út og leiknum lauk með markalausu jafntefli. Það þýðir að Lyngby heldur sér uppi, endar með 29 stig líkt og Horsens en með betri markatölu. Álaborg endaði neðst með 28 stig.

Gríðarlegur fögnuður braust út hjá leikmönnum Lyngby og þjálfaranum Frey Alexanderssyni en liðið hefur verið í fallsæti nær allt tímabilið en frábær endasprettur liðsins bjargaði því frá falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×