Innlent

Þjarma að heil­brigðis­ráð­herra um skaða­minnkun

Árni Sæberg skrifar
Arndís Anna ætlar að þjarma að heilbrigðisráðherra ásamt flokksfélögum sínum í dag.
Arndís Anna ætlar að þjarma að heilbrigðisráðherra ásamt flokksfélögum sínum í dag. Vísir/Vilhelm

Píratar munu krefja heilbrigðisráðherra svara við spurningum um skaðaminnkun, sem snýr að því að mæta vímuefnaneytendum á þeirra forsendum, í sérstakri umræðu um málefnið á þingfundi í dag. 

Sérstök umræða um skaðaminnkun hefst klukkan 14 á Alþingi í dag. Málshefjandi er Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, og til andsvara verður heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson. Hægt er að fylgjast með umræðunni hér að neðan:

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, flokkssystir Halldóru, segir að Píratar vonist til þess að koma umræðunni um skaðaminnkun aftur af stað, en ákveðin ládeyða hafi verið í henni undanfarið.

„Við vonumst til þess að fá svör við ákveðnum spurningum, og auðvitað koma umræðunni aftur af stað. Hún var komin mjög langt fyrir ekki löngu síðan en það virðist hafa komið einhvers konar bakslag eða stöðnun í þessa umræðu, sem við teljum mjög brýna. Þær spurningar sem við munum beina til ráðherra eru til að mynda hvernig ráðherra skilgreinir skaðaminnkun,“ segir hún.

Vilja vita við hvað starfshópur starfar

Heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp um skaðaminnkun og Píratar vilja svör við því hvert hlutverk starfshópsins er nákvæmlega.

„Og svo er það mikilvægustu spurningar, hvort ráðherra telji skaðaminnkun geta skilað árangri án afglæpavæðingu neysluskammta,“ segir hún.

Willum Þór tók boðað frumvarp sitt um afglæpavæðingu neysluskammta af dagskrá þingsins fyrir skömmu. Arndís Anna segir það bagalegt í ljósi þess hversu margir hafa látist vegna ofneyslu fíkniefna síðustu misseri.

„Svo væri áhugavert að fá svör við því hvaða árangri þessi bannstefna hefur skilað í þágu einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða,“ segir Arndís Anna og bætir við að Píratar telji afglæpavæðingu, sem gangi meðal annars út á það að fólk geti leitað sér hjálpar vegna ofskömmtunar án þess að óttast viðurlög, gríðarlega mikilvæga.

„Það er þannig að þegar þú ert með neysluskammt á þér þá ertu brotlegur við lög og það er svolítið erfitt að sjá fyrir sér hvernig heilbrigðisráðherra ætlar að tryggja það að fólk fái aðstoð og koma í veg fyrir dauðsföll, sem eru orðin skelfilega algeng,“ segir Arndís Anna.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.