Fótbolti

Sædís: Jasmín vill meina að hún hafi skorað

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sædís Lilja í baráttunni í kvöld.
Sædís Lilja í baráttunni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Sædís Rún Heiðarsdóttir var valin maður leiksins í 3-0 sigri Stjörnunnar á Keflavík fyrr í kvöld. Það voru þó stigin þrjú sem lágu henni efst í huga að leik loknum.

„Alltaf gott að fá þrjú stig og hvað þá á heimavelli. Mjög mikilvægt fyrir okkur að ná í þessi þrjú stig,“ sagði Sædís í viðtali við Vísi eftir leik.

Sædís lagði upp tvö mörk af þremur en báðar stoðsendingarnar voru föst leikatriði.Fyrra markið kom upp úr hornspyrnu, en það var fyrirliðinn Anna María Baldursdóttir sem kom boltanum yfir línuna. Seinna markið skoraði Jasmín Erla Ingadóttir eftir aukaspyrnu Sædísar, en það var áhorfendum óljóst hvort hún hefði náð snertingu á boltann.

„Jasmín vill meina það [að hún hafi skorað], þannig að ég treysti henni fyrir því.“

Sædís tók flest öll föst leikatriði Stjörnunnar í leiknum og átti margar fínar sendingar inn á vítateig andstæðinganna.

„Ég er mjög þakklát fyrir tækifærið og mér finnst gaman að taka föst leikatriði þannig að ég er fegin að fá það hlutverk.“

Næsti leikur Stjörnunnar er gegn Breiðablik á Kópavogsvellinum, miðvikudaginn 7. júní. Þar gefst Stjörnunni tækifæri til að skjóta sér upp í annað sæti deildarinnar.

„Við erum með góðan hóp og erum allar góðir íþróttamenn, við vitum að þessi leikur í dag gefur okkur ekki neitt á móti Breiðablik þannig að við þurfum bara að mæta 100% á móti þeim.“ sagði Sædís að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.