„Í tilefni afmælisins setti safnið á fót Ásgrímsleiðina ásamt Listasafni Árnesinga sem heldur upp á 60 ára afmæli sitt og Listasafni Íslands. Minnt er á einn fremsta listamann þjóðarinnar sem fæddist í Árnessýslu og var Ásgrímur Jónsson (1876-1958) listmálari frá Rútsstaða-Suðurkoti í Flóa. Kynntir eru sögustaðir Ásgríms og söfnin þrjú sem tengjast Ásgrími, Listasafn Íslands sem varðveitir gjöf hans til þjóðarinnar, Listasafn Árnesinga sem varðveitir listaverk eftir hann og Byggðasafn Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka en þar dvaldi Ásgrímur í rúm tvö ár á mótunarárum sínum,“ segir Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga og bætir við að í ferðinni sé fólk hvatt til þess að ferðast um söfnin, uppeldisslóðir Ásgríms og vitja grafreits hans í Gaulverjabæjarkirkjugarði. Í borðstofu Hússins á Eyrarbakka er sýning um æsku Ásgríms, „Drengurinn, fjöllin og Húsið“.

Vefsýning í tilefni af 70 ára afmælinu
Í tilefni 70 ára afmælinu hefur verið sett um vefsýning á síðunni www.sarpur.is sem er gagnagrunnur íslenskra safna. Þar er safnið kynnt ásamt vel völdum safnmunum úr safnkosti safnsins. Á sýningunni eru kynntir gripir úr öllum gömlu sveitarfélögum Árnessýslu. Mestallur safnkostur Byggðasafns Árnesinga er skráður í Sarp og geta allir áhugasamir kynnt sér gripi sem eiga sér uppruna í þessu stóra og fjölmenna héraði.
Hlutverk safnsins
Stofnun Byggðasafns Árnesinga var á vegum Sýslunefndar Árnessýslu en núverandi eigandi safnsins er Héraðsnefnd Árnesinga, byggðasamlag átta sveitarfélaga sýslunnar. Hlutverk safnsins er söfnun, varðveisla, rannsóknir og miðlun á menningaminjum héraðsins. Safnið heldur uppi grunnsýningu í Húsinu á Eyrarbakka, Eggjaskúrnum, Kirkjubæ og Sjóminjasafninu. Einnig sér safnið um Rjómabúið á Baugsstöðum. Innri aðstaða safnsins er að Búðarstíg 22 á Eyrarbakka. Við safnið starfa þrír fagmenntaðir starfsmenn auk lausráðinna starfsmanna yfir sumartímann. Í söfnum er leitast við að svara spurningunni hver erum við? Hvert var fólkið sem byggði þetta samfélag? Söfn segja sögu með gripum og geyma í sér ákveðin minni. Söfn varðveita því menningu heilla byggðalaga og eru því samfélagslega mikilvæg.