Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði meginvexti sína enn eina ferðina í morgun og nú um 1,25 prósentustig og eru þeir þá komnir í 8,75 prósent. Jafnframt hækkaði nefndin fasta bindiskyldu innlánsstofnana úr 1% í 2%, sem draga á úr útlánum bankanna. Í marsmánuði hækkaði Seðlabankinn einnig framlög viðskiptabankanna í svo kallaðan sveiflujöfnunarauka úr 2 prósentum í 2,5 prósent.
Undanfarið hafa útlán til fyrirtækja aukist töluvert en hægt hefur á húsnæðismarkaðnum. Ásgeir Jónsson seðlabankastkóri segir Seðlabankann verða að bregðast við mikilli verðbólgu sem mældist 9,9 prósent í apríl.

„Það má alveg velta fyrir sér hver verðbólgan væri ef við hefðum ekki gert neitt. En það sem við höfum gert er ekki nóg og miðað við þær horfur sem eru núna þurfum við að gera betur. Við þurfum að hækka vexti. Við þurfum að stöðva þessa verðbólgu og tryggja að við náum sýnilegum árangri fyrir næstu kjarasamninga,“ segir Ásgeir.
Það sem veldur verðbólgunni er mikil eftirspurn í hagkerfinu og verðhækkanir á innfluttum vörum ásamt viðvarandi miklum hækkunum á húsnæðisverði þótt hægt hafi á þeim. Þannig hefur verð á dagvöru hækkað um 12 prósent síðast liðna tólf mánuði.
Mikill kraftur er í atvinnulífinu og eftirspurn eftir vinnuafi þannig að þúsundir manna hafa verið fluttir til landsins á sama tíma og skortur er á íbúðarhúsnæði. Seðlabankastjóri segir meðal annars þess vegna verði að herða taumhald peningastefnunnar.

„Við erum líka að hækka bindiskyldu bankanna. Að einhverju leyti til að takmarka svigrúm þeirra til að lána út. Við gætum stigið fleiri skref þar en við erum í rauninni að reyna að hægja á þessari þenslu. Það er mjög gott ef hjól atvinnulífsins snúast en þau meiga ekki fara að spóla, við skulum orða það þannig. Þess vegna erum við að grípa til þessara aðgerða,“ segir seðlabankastjóri.
Stjórnvöd verði líka að auka sitt aðhald með minni útgjöldum og/eða hækkun skatta. Seðlabankinn muni halda áfram að hækka vexti þar til verðbólga gangi niður og að óbreyttum verðbólguspám þurfi að hækka vexti enn frekar á næsta vaxtaákvörðunardegi í ágúst. Seðlabankastjóri segir síðustu kjarasamninga hafa verið vonbrigði enda laun hækkað umfram framleiðni. Miklu máli skipti að í yfirstandandi kjaraviðræðum verði gerðir samningar til langs tíma.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt að verkalýðsleiðtogar viðurkenni ábyrgð sína í þessu máli. Að þeir eru gerendur ekki áhorfendur. Það sem blasir við þeim er að það þarf að ná samningum sem tryggja verðstöðugleika og hjálpa okkur við þetta verkefni að ná verðbólgunni niður,“ segir Ásgeir Jónsson. Sömuleiðis verði atvinnulífið að axla sína ábyrgð.