Viðskipti innlent

Vonandi ekki þjóðar­sátt um að Seðla­bankinn bregðist einn við

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir nauðsynlegt að ríkið og vinnumarkaðurinn stígi upp í baráttunni við verðbólgu og verðbólguvæntingar.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir nauðsynlegt að ríkið og vinnumarkaðurinn stígi upp í baráttunni við verðbólgu og verðbólguvæntingar. Vísir/Vilhelm

Ás­geir Jóns­son, seðla­banka­stjóri, segir gríðar­lega mikil­vægt að aðilar vinnu­markaðarins og ríkis­valdsins standi undir sinni á­byrgð og taki þátt í því að bregðast við verð­bólgu og verð­bólgu­væntingum með Seðla­banka Ís­lands.

Þetta er meðal þess sem fram kom á blaða­manna­fundi peninga­stefnu­nefndar Seðla­bankans í morgun. Þar sátu fyrir svörum Ás­geir Jóns­son auk Rann­veigar Sigurðar­dóttur, vara­seðla­banka­stjóra peninga­stefnu og stað­gengill formanns og Þórarinn G. Péturs­son, aðal­hag­fræðingur Seðla­bankans.

Til­kynnt var í morgun að vextir bankans yrðu hækkaðir um 1,25 prósentu­stig, í 8,75 prósent. Um var að ræða þrettándu hækkun stýri­vaxta Seðla­bankans í röð. Þeir hafa ekki verið hærri síðan í febrúar 2010.

Telur Seðla­bankann einan á báti

Á fundinum var Ás­geir meðal annars spurður hvort hann teldi að hið opin­bera taki nægi­lega á­byrgð á hækkandi verð­bólgu og hvort að Seðla­bankinn væri einn á báti í þeirri bar­áttu.

„Svarið er já,“ sagði Ás­geir þá en bætti því við að í nú­verandi ríkis­fjár­mála­ætlun séu stigin fyrstu skref í átt að því að hið opin­bera taki á­byrgð á stöðunni. Þá segir hann að vinnu­markaðurinn þurfi einnig að stíga upp.

„Það er stundum orðað þannig að ef það er vandi að þá þurfi fyrst að viður­kenna vandann og síðan taka á­byrgð. Það er mjög mikil­vægt að vinnu­markaðurinn viður­kenni á­byrgð sína og að hann átti sig á því að það að ætla að hækka nafn­laun hjálpar ekki endi­lega fólki, heldur eykur verð­bólguna sem þýðir að þá þarf að hækka stýri­vexti.“

Rann­veig rifjaði upp að byrjað hefði verið að tala um þjóðar­sátt í fyrra gegn verð­bólgunni. „Núna eftir á er ljóst að sú þjóðar­sátt var þá greini­lega bara um það að Seðla­bankinn héldi á­fram að hækka vexti. Kjara­samningar voru dýrir og fram­kvæmd þeirra mjög dýr og fjár­mála­ætlun hefði getað verið mun metnaðar­fyllri,“ segir Rann­veig.

„Þannig að vonandi verður um­ræða um þjóðar­sátt núna ekki á þeim nótum að Seðla­bankinn haldi á­fram einn að hækka vexti heldur komi aðrir aðilar inn í þá þjóðar­sátt.“

Á­hrifa­máttur peninga­stefnunnar mikill óháð verð­tryggingu

Þá vék Þórarinn G. Péturs­son, aðal­hag­fræðingur Seðla­bankans, á fundinum í kynningu sinni á á­kvörðun peninga­stefnu­nefndar að um­ræðunni um að fjölgun heimila með verð­tryggð lán þýði að peninga­stefna Seðla­bankans hafi ekki lengur á­hrif.

„Ó­líkt því sem haldið er fram í al­mennri um­ræðu skiptir þetta engu máli. Á­hrifa­máttur peninga­stefnunnar er alveg eins hvort sem hluti verð­tryggðra lána er mikill eða lítill,“ segir Þórarinn.

„Full­yrðingar um að peninga­stefnan ýti fólki í verð­tryggð lán er rétt. Full­yrðingar um að hún hafi á­hrif á miðlunar­ferli peninga­stefnunnar er röng.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×