Samkvæmt fjölmiðlum í Ástralíu lést Nowland á sjúkrahúsi í dag umkringd fjölskyldu sinni. Fyrr í dag var tilkynnt að lögregluþjónn hefði verið ákærður fyrir að skjóta hana með rafbyssu.
Umrætt atvik átti sér stað í bænum Cooma í Nýja Suður-Wales í Ástralíu í síðustu viku. Lögregluþjónar voru þá kallaðir til hjúkrunarheimilis þar sem Nowland var sögð óróleg og með hníf.
Tveir lögregluþjónar mættu á vettvang en þá hélt Nowland á steikarhníf. Lögreglustjórinn Peter Cotter segir að Nowland, sem var 43 kíló að þyngd, hafi neitað að leggja hnífinn frá sér og hún hafi verið að nálgast lögregluþjónana tvo, hægt, á göngugrind.
Þá skaut lögregluþjónninn Kristian White hana með rafbyssu. Nowland féll í gólfið og höfuðkúpubrotnaði og blæðingu inn á heila.
Ríkisútvarp Ástralíu sagði frá því í morgun að White hefði verið ákærður fyrir að skaða Nowland og að sú ákvörðun hafi verið tekin í kjölfar ítarlegrar rannsóknar. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif dauðsfall Nowland mun hafa á ákærurnar gegn White.
Sjá einnig: Heita því að hlífa engum eftir að öldruð kona með heilabilun var beitt rafbyssu
Karen Webb, yfirmaður lögreglunnar í Nýja Suður-Wales, sagði blaðamönnum í morgun að mikilvægt væri að samfélagið gæti treyst lögregluþjónum. Það sé hægt að treysta lögregluþjónum og þetta sé eitt atviki af um tveimur milljónum útkalla á ári hverju.