Erlent

Frakkar banna stutt flug

Máni Snær Þorláksson skrifar
Frakkar hafa tekið upp á því að banna stutt innanlandsflug.
Frakkar hafa tekið upp á því að banna stutt innanlandsflug. Getty/NurPhoto

Frakkland hefur nú bannað stutt innanlandsflug ef sambærileg lestarferð er til staðar. Þetta er gert til að sporna við losun kolefnis þar sem lestarferðirnar eru töluvert umhverfisvænni. Það eru þó ekki jafn margar flugleiðir sem verða fyrir barði bannsins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Fyrst átti bannið að gilda um allar leiðir sem væru sex klukkutíma langar með lest en það olli titringi hjá franska þinginu. Að lokum var ákveðið að bannið myndi einungis taka til þeirra leiða sem hægt er að komast á undir tveimur og hálfum tíma með lest.

Þá þurfa lestarferðir sem eiga að koma í stað flugferðanna að vera tíðar, tímanlegar og með góðum tengingum. 

Samkvæmt Local gildir bannið einungis um áætlunarflug, ekki einkaflug. Umræða hefur verið um það á franska þinginu hvernig sporna eigi við kolefnislosun einkaflugvéla. Sum hafa kallað eftir því að banna lítil einkaflug alveg.

Bannið hefur fengið gagnrýni fyrir að vera einungis táknrænt. Laurent Donceel, starfandi framkvæmdastjóri Airlines for Europe, segir í samtali við AFP að bann á þessum stuttu ferðum hafi einungis lágmarks áhrif á losun kolefnis.

Ríkisstjórnir ættu að hans mati að styðja frekar við „raunverulegar og þýðingarmiklar“ lausnir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×