Fótbolti

Forseti La Liga drullar yfir Vinícius Junior

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Javier Tebas og Vinícius Junior deila fyrir opnum tjöldum.
Javier Tebas og Vinícius Junior deila fyrir opnum tjöldum. vísir/getty

Javier Tebas, forseti La Liga, hefur brugðist við ummælum Vinícius Junior, leikmanns Real Madrid, um að spænska úrvalsdeildin tilheyri núna rasistum.

Vinícius varð fyrir kynþáttaníði í 1-0 tapi Real Madrid fyrir Valencia í gær. Brassinn var rekinn af velli í uppbótartíma eftir að hann braut á leikmanni Valencia, Hugo Duro. Fyrr í leiknum hafði hópur stuðningsmanna Valencia beint apahljóðum að Vinícius.

Eftir leikinn sendi Vinícius rasistunum og spænsku úrvalsdeildinni tóninn. „Deildin sem gat einu sinni státað sig af Ronaldinho, Ronaldo, [Cristiano] Ronaldo og [Lionel] Messi tilheyrir rasistum í dag,“ skrifaði Vinícius á Instagram í gærkvöldi.

„Þetta var ekki í fyrsta sinn, ekki annað og ekki þriðja. Rasismi hefur verið samþykktur í La Liga. Deildinni finnst þetta eðlilegt, spænska knattspyrnusambandinu líka og móherjar nýta sér það. Þetta fallega land sem bauð mig velkominn og ég elska er núna álitið rasískt. Ég finn til með Spánverjum sem eru ekki sammála en í dag er Spánn álitið rasískt land í Brasilíu. Því miður gerist þetta í hverri viku. En ég er sterkur og mun berjast allt til loka gegn rasistunum.“

Tebas tók til varna á Twitter. Hann sagði af og frá að spænska úrvalsdeildin væri rasísk. Hann sagði gagnrýni Vinícius ósanngjarna og að spænska úrvalsdeildin berðist með kjafti og klóm gegn rasisma.

Tebas sagði jafnframt að níu tilkynningar um kynþáttaníð í spænsku úrvalsdeildinni hefðu borist á þessu tímabili. Átta þeirra beindust gegn Vinícius.

Jafnframt sagði Tebas að Vinícius hefði ekki mætt á tvo fundi sem hann óskaði eftir þar sem farið hefði verið yfir aðgerðir spænsku úrvalsdeildarinnar gegn rasisma. Tebas sagði ennfremur að Vinícius ætti að vera betur upplýstur áður en hann gagnrýndi og móðgaði La Liga.

Vinícius brást við þessum ummælum Tebas og sagði að enn og aftur gagnrýndi hann sjálfan í stað þess að gagnrýna rasistana. Hann sagði jafnframt að Tebas væri ekkert skárri en rasistarnir.

„Ég er ekki vinur þinn til að tala um rasisma. Ég vil aðgerðir og refsingar. Hasstög hreyfa ekki við mér,“ skrifaði Vinícius á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×