Fótbolti

Diljá með stoðsendingu í tapi Norrköping

Smári Jökull Jónsson skrifar
Diljá Ýr lagði upp fyrir Norrköping í dag.
Diljá Ýr lagði upp fyrir Norrköping í dag. Heimasíða IFK Norrköping

Diljá Ýr Zomers lagði upp mark Norrköping sem tapaði 2-1 á heimavelli gegn Vittsjö í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Norrköping hefur gengið illa að skora í síðustu leikjum liðsins og höfðu aðeins skorað eitt mark í síðustu fjórum viðureignum sínum í deildinni. Liðið var í áttunda sæti deildarinnar fyrir leikinn, þremur á eftir Vittsjö sem sat í sjöunda sætinu.

Gestirnir frá Vittsjö náðu forystunni undir lok fyrri hálfleiks með marki frá Katrina Gorry. Staðan í hálfleik var 1-0 en á 55. mínútu jafnaði My Cato fyrir Norrköping. Boltinn barst þá til Diljár Ýrar sem sendi hann í fyrsta til Cato, skot hennar breytti um stefnu á varnarmanni og lak í netið. Staðan orðin 1-1.

Diljá Ýr var tekin af velli skömmu eftir markið og strax í kjölfarið skoraði Jutta Rantala sigurmark Vittsjö og tryggði liðinu sætan útisigur.

Norrköping er því áfram í áttunda sæti deildarinnar með tíu stig eftir átta leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×