Fótbolti

Milos ekki á­fram hjá Rauðu Stjörnunni | Gæti endað í Sví­þjóð á nýjan leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Milos Milojevic yfirgefur Rauðu Stjörnuna eftir tímabilið eftir að hafa verið við stjórnvölinn í eitt ár.
Milos Milojevic yfirgefur Rauðu Stjörnuna eftir tímabilið eftir að hafa verið við stjórnvölinn í eitt ár. Vísir/Getty

Milos Milojevic fær ekki áframhaldandi samning sem þjáfari Rauðu Stjörnunnar í Serbíu þrátt fyrir að hafa stýrt liðinu til meistaratitils í ár. Milos gæti tekið við liði í Svíþjóð á nýjan leik.

Milos Milojevic tók við knattspyrnustjórastöðunni hjá Rauðu Stjörnunni í ágúst síðastliðnum en hann hafði áður stjórnað Víkingi og Breiðablik hér og landi sem og Mjällby, Hammarby og Malmö FF í Svíþjóð.

Það hefur gengið afar vel hjá lærisveinum Milos á tímabilinu en Rauða Stjarnan er ósigrað í þrjátíu leikjum í deildakeppninni og fyrir löngu búið að tryggja sér meistaratitilinn. Þar að auki er liðið komið í bikarúrslitaleik sem fer fram þann 1. júní næstkomandi.

Þrátt fyrir þetta hefur Rauða Stjarnan nú tilkynnt að Milos verði ekki áfram þjálfari liðsins á næstu leiktíð.  Í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins þakkar Milos fyrir sig.

„Ég vil þakka Rauðu Stjörnunni fyrir að hafa gefið mér tækifæri að sanna mig á stóra sviðinu sem þjálfari. Við höfum átt í frábæru samstarfi. Ég hef reynt að vera faglegur, ég gerði mitt besta og það mun ég halda áfram að gera þangað til minn tími á bekknum hjá Rauðu Stjörnunni er liðinn. Mig langar virkilega að vinna serbneska bikarinn og eftir þann 1. júní mun ég, líkt og áður, vera stuðningsmaður liðsins.“

Gæti endað í Svíþjóð á nýjan leik

Eins og áður segir hefur Milos starfað sem knattspyrnustjóri þriggja félaga í Svíþjóð. Hann var ráðinn til Malmö FF haustið 2021 en sagt upp störfum síðasta sumar eftir erfiða byrjun liðsins.

Nú gæti hins vegar farið svo að Milos endi í Svíaríki á nýjan leik. Fjölskylda Milos býr enn í Svíþjóð en í samtali við Fotbollskanalen nýlega viðurkenndi hann að áhugi væri á hans störfum í sænsku deildinni.

„Það er áhugi, en ég vill vera hreinskilinn með að það liggur ekkert tilboð á borðinu. Ég hef ekki hugsað um hvað ég vill gera hvað varðar land eða næsta skref á ferlinum. Það skiptir máli og það er erfitt að fjölskyldan er í Svíþjóð. Það er andlega mjög erfitt fyrir mig. Ég verð að íhuga hvert næsta skref verður svo ég og fjölskylda mín verðum ánægð,“ sagði Milos í viðtali við Fotbollskanalen í lok apríl en þá var kominn af stað orðrómur um að samningur hans hjá Rauðu Stjörnunni yrði ekki framlengdur.

Í hlaðvarpinu Just nu: Allsvenskan er Milos orðaður við þjálfarastarfið hjá IFK Gautaborg sem hefur farið frekar illa af stað í sænsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×