Fótbolti

Fleiri ís­lenskir at­vinnu­menn en finnskir og ung­verskir

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Sigurðsson er lykilmaður í Íslendingaliði Norrköping í Svíþjóð og Hákon Arnar Haraldsson er sömuleiðis í stóru hlutverki í Íslendingaliði FC Kaupmannahafnar.
Arnór Sigurðsson er lykilmaður í Íslendingaliði Norrköping í Svíþjóð og Hákon Arnar Haraldsson er sömuleiðis í stóru hlutverki í Íslendingaliði FC Kaupmannahafnar. Getty/Alex Nicodim

Ísland er í 47. sæti yfir þær þjóðir heimsins sem eiga flesta atvinnumenn í knattspyrnu karla sem spila utan síns heimalands, samkvæmt úttekt CIES Football Observatory sem er hluti af Alþjóðamiðstöð íþróttarannsókna í Sviss.

Samkvæmt úttektinni eru íslenskir atvinnumenn 75 talsins. Aldursskipting þeirra er sem hér segir:

  • Yngri en 23 ára: 24
  • 23-26 ára: 22
  • 27-30 ára: 18
  • Eldri en 30 ára: 11

Íslendingar eru rétt á eftir Mexíkóum á listanum, og fyrir ofan þjóðir á borð við Finna, Ungverja og Tyrki.

Brasilíumenn, Frakkar og Argentínumenn eru í sérflokki á listanum. Alls eru 1.289 Brasilíumenn skráðir atvinnumenn utan heimalands síns, 1.033 Frakkar og 905 Argentínumenn.

Algengast er að íslensku atvinnumennirnir spili á Norðurlöndunum en samkvæmt úttektinni eru 14 þeirra í Svíþjóð, 12 í Noregi og 11 í Danmörku. Miðað er við leikmenn í aðalliðshópi 1. maí síðastliðinn en miðað við þessar tölur virðast til að mynda leikmenn sem spila í næstefstu deild í Danmörku og Svíþjóð ekki taldir með.

Á eftir Norðurlöndunum á Ísland flesta atvinnumenn á Ítalíu, í Grikklandi og Hollandi.

Lönd með íslenska atvinnumenn, samkvæmt CIES:

  • Svíþjóð, 14
  • Noregur, 12
  • Danmörk, 11
  • Ítalía, 8
  • Grikkland, 6
  • Holland, 6
  • Bandaríkin, 4
  • Belgía, 3
  • England, 3
  • Færeyjar, 1
  • Þýskaland, 1
  • Ungverjaland, 1
  • Litháen, 1
  • Pólland, 1
  • Katar, 1
  • Rúmenía, 1
  • Tyrkland, 1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×