Innlent

Danir geta hlaupið í skarðið fyrir Land­helgis­­gæsluna á fundar­tíma

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Landhelgisgæslan tekur þátt í að tryggja öryggi fundarins. Bæði í legi og lofti.
Landhelgisgæslan tekur þátt í að tryggja öryggi fundarins. Bæði í legi og lofti. Vísir/Vilhelm

Land­helgis­gæslan býðst að­stoð danska sjóhersins við störf sín á meðan leið­toga­fundi Evrópu­ráðsins í Reykja­vík stendur. Þyrla um borð í dönsku varð­skipi er til taks í leit og björgun eða sjúkra­flutninga, hvort sem er á sjó eða landi á meðan þyrlur gæslunnar sinna eftir­liti fyrir lög­reglu í Reykjavík.

Þetta stað­festir Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar í sam­tali við Vísi. Þyrlur gæslunnar hafa vakið at­hygli borgar­búa í dag þar sem þær sveima yfir hverfum borgarinnar. Ás­geir segir þær þar við eftir­lits­störf fyrir lög­reglu vegna leið­toga­fundarins í Hörpu.

Eins og fram hefur komið er gríðar­leg öryggis­gæsla yfir­valda vegna fundarins í Hörpu sem fjöl­mörg al­þjóð­leg lög­reglu­em­bætti koma að á­samt því ís­lenska. Þyrlur Land­helgis­gæslunnar hafa verið nýttar til eftir­lits í Reykja­vík auk varðskipsins Þór.

Lögregluyfirvöld hafa ekki gefið upp hve margir lögreglumenn eru við öryggisgæslu við tónlistarhúsið en Karl Steinar Valsson, yfir­lög­reglu­þjónn al­þjóða­sviðs ríkis­lög­reglu­stjóra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að um hundrað sérfræðingar frá norðurlöndum væru hér við gæslu. 

Ás­geir segir að færi það þannig að þyrlurnar væru vant við látnar við eftir­lits­störf í sam­starfi við lög­reglu þegar út­kall berst til gæslunnar verði danska þyrlan til taks.

„Ef þannig staða kæmi upp þá getum við leitað til Dana sem gætu þá hlaupið í skarðið,“ segir Ás­geir. Staðan sé metin hverju sinni.

„Við höfum þá þessa þriðju þyrlu til taks sem er um borð í danska varð­skipinu og getum kallað það út til þess að sinna leit og björgun eða sjúkra­flutningum, hvort sem er á sjó eða landi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×