Innlent

Árekstur og húsbíll sem þveraði veginn

Máni Snær Þorláksson skrifar
Ökumenn lentu í vandræðum á Fjarðarheiði í kvöld sökum vetrarfærðar.
Ökumenn lentu í vandræðum á Fjarðarheiði í kvöld sökum vetrarfærðar. Landsbjörg

Að minnsta kosti einn árekstur varð á Fjarðarheiði í kvöld sökum vetrarfærðar. Þá hafa þó nokkrir bílar verið skildir eftir á heiðinni og fólk flutt niður af heiðinni til Seyðisfjarðar.

„Þarna bara varð skyndileg vetrarfærð og töluverð ófærð,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við fréttastofu um málið. Hann segir að enginn hafi slasast í árekstrinum. Flestir bílanna á heiðinni hafi verið komnir á sumardekk, ökumenn ráði illa við færðina sem er nú þar.

Björgunarsveitarfólk er nú á vettvangi að hjálpa til. „Það er bara verið að leysa úr þessu,“ segir Jón Þór en verið er að flytja fólk úr bílunum niður til Seyðisfjarðar.

„Það voru þó nokkuð margir bílar skildir eftir, það er verkefni morgundagsins að koma þeim niður.“

Húsbíll þveraði veginn

Vegagerðin er nú búin að loka Fjarðarheiði fyrir allri umferð. Nokkur fjöldi bíla er þó enn á leiðinni og koma í veg fyrir að moksturstæki Vegagerðarinnar komist leiðar sinnar til að opna veginn á ný. 

Húsbíll sem þveraði veginn var á meðal þeirra sem stóðu í vegi fyrir mokstursbílnum. Nú hefur þó húsbíll fokið út af veginum, líklegast sá sami og þveraði hann.

Gul viðvörun í kvöld og á morgun

Veðurspáin var slæm fyrir svæðið en gul viðvörun er ennþá í gildi fyrir svæðið. „Það var von á þessu en þetta varð óvenju slæmt þarna,“ segir Jón Þór. Veðurstofan varaði fólk við að leggja í langferðir á vanbúnum bílum sökum þess að líkur voru á vetrarfærð.

Gul viðvörun tekur aftur gildi á Austurlandi að Glettingi klukkan tíu á morgun. Þá er búist við norðan og norðvestan átta til fimmtán metrum á sekúndu, snjókomu eða skafrenningi og litlu skyggni með köflum. 

Uppfært 8:00:  Búið er að opna Fjarðarheiði að nýju. Frá þessu segir á vef Vegagerðarinnar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×