Fótbolti

Liverpool sé tilbúið að greiða sjötíu milljónir fyrir Mac Allister

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alexis Mac Allister er á óskalista Liverpool.
Alexis Mac Allister er á óskalista Liverpool. Mike Hewitt/Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool er tilbúið að greiða sjötíu milljónir punda fyrir argentínska miðjumanninn Alexis Mac Allister, leikmann Brighton.

Það er enski miðillinn Mirror sem greinir frá þessu, en sjötíu milljónir punda samsvara rúmum tólf milljörðum íslenskra króna.

Samkvæmt grein Mirror um málið er þessi 24 ára gamli leikmaður til í að ganga til liðs við Liverpool, þrátt fyrir áhuga frá liðum á borð við Manchester United og Arsenal. Viðræður milli Liverpool og leikmannsins séu þegar hafnar og búist er við því að James Milner fari hina leiðina eftir átta ára veru hjá Liverpool.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur áður nefnt að hann vilji fá í það minnsta þrjá nýja miðjumenn til félagsins. Mac Allister yrði þá einn þeirra, en félagið er einnig sagt leiða kapphlaupið um Mason Mount, miðjumann Chelsea.

Talið er að Liverpool gæti fengið Mount frá Chelsea fyrir fimmtíu milljónir punda, en eftir að fréttir bárust af því að Mauricio Pochettino sé að öllum líkindum að taka við Lundúnaliðinu á eftir að koma í ljós hvort hann vilji halda Mount eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×